breytingar

Í gær upplifði ég það, að allt sem ég hef hingað til lifað fyrir skiptir ekki svo miklu máli fyrir mig þar sem því fylgir leiðinlegur fylgikvilli sem hentar bara ekki lífi mínu lengur.

Ég stefni á Berlínarhlaup að ári.....

Mig vantar:
-hlaupaskó
-matarræðistiltekt
-æfingaprógramm

Í vetur ætla ég að æfa tvisvar í viku með þeim einstaklingum  sem ég þekki og ætla í þetta ævintýri.  Jamm... ég á mér oft háleit markmið. 

GönguglaðiKúrubangsinn talar um að yfirgefa landið...  og ég sit og klóra mér í höfðinu yfir því hvernig ég eigi að komast yfir þann missi. 
-Ég er ekki búin að læra nóg af honum. 
-Ég er ekki búin að ganga á nógu mörg fjöll með honum. 
-Ég er ekki búin að upplifa nógu margt með honum yfir höfðuð til að geta verið sátt við það.

Jarðaberjaplönturnar mínar gefa ríkulega af berjum núna og ekkert er eins skemmtilegt og að tölta út í garð til að ná sér í ber í hafragrautinn.


saga lífs míns

......
Henni tókst ekki það sem hún vildi.
Vissi ekki hvað hún ætlaði.
Hún kunni ekki til verksins.
Og enginn kennari viðstaddur.
Það er nefnilega ekki sjálfgefið að maðurinn kunni að lifa,
af því einu að hann ,,er lifandi",
að hann dregur andann.......pétur guðjónsson

Ég er afskaplega hrifin af bókunum mínum og finnst það eiginlega synd að ég skuli ekki vera búin að lesa þær allar.

Rigningarspá segir mér að ég komi ekki til með að þurrka þvottinn minn úti á morgun. Hausinn á mér segir mér að ég er löt.  Fiðringurinn í maganum að ég verði að upplifa eitthvað.  Og vinir mínir að það sé komin tími til að þroskast.

Ég vildi að ég kynni á eitthvað hljóðfæri.....


íhugun

Ég settist út í garð áðan og velti fyrir mér lífinu.   

Einhverra hluta vegna tuða vinir mínir í mér eins og ég geti bara veifað töfrasprota og *bingó* batnað í tánni og gengið með þeim Laugarveginn.  Ég get bara ekki séð það fyrir mér hvernig sem ég reyni.  Svo að ég tók þá ákvörðun  að hvernig sem hvað er þá er ég ekki undir neinum  kringumstæðum á þeirri leið.

Ég verð þá bara að rölta þessa leið ein í ágúst.....

Þar sem ég sat í veðraða tágarstólnum mínum sem ég erfði Listakonuna af þegar hún flutti til Noregs um árið fór nágranninn að brölta eitthvað um svo augu mín hvörluðu af Hunangsflugu sem hafði fangað athygli mína og á þetta brambolt hennar.  Þegar ég svo stóð upp var ég búin að gleyma tilvist flugunnar og steig á hana.  Flugu-rassgatinu varð svo um að hún sparkaði svo hressilega í mig að ég feyktist frá og hljóp grenjandi inn til mömmu.   Það er sko munur að hafa mömmu við hendina meðan ég á svona bágt.

Ég hugsaði líka um væntanlega búsetu og kem til með að gera það eitthvað áfram þar sem vinkona mín er alltaf að detta niður á tilvalnar lausnir mér til handa.   Sjálf geri ég ráð fyrir að flytja í leigusambúð í Mosfellsbæ nema eitthvað miklu ódýrara, hagstæðarar og betra á allan hátt detti inn á borðið hjá mér.


fábrotið líf mitt

Það kveiknaði í bakinu á mér í Sólargöngunni með FallegaFólkinu....  Núna sit ég  með  sviða á herðum og hrygg, töluvert dekkri en áður en ég fór.

Ég fór haltrandi í afmælisveislu í Heiðmörkinni, sat þar á teppisdruslu og naut þjónustu Heilsuhvíslarans...  Grillmeistarinn bauð upp á Makríl sem var hreint lostæti. Í græðgi minni varð mér samt á að gleipa bein sem veldur mér leiðindum í augnablikinu.

Á mánudag munu göngufélagar mínir leggja af stað í Laugarvegsgöngu án mín. Ég mun sita heima að bryðja pensilin með tánna upp í loft.

Brussel stelpan er  mætt á svæðið og ég ætla mér að hitta hana....  Skólasystir mín er í sumarfríi og við ætlum að hittast á meðan það varir....  Mamma mín, litla systir og fallegasti litli frændi í heimi búa hjá mér.... 

Og vegna þess að ég ætla að vera flutt út úr þessari íbúð 1.ágúst verð ég víst að halda mig við það að pakka niður bókunum mínum og öðrum merkilegum eignum mínum.

Verst að eiga samkvæmt læknisráði að taka það rólega......


ég trúi...

...því að það sé tilgangur með öllu.  Þess vegna get ég sætt mig við það að sita heima með ónýta tá á  meðan göngufélagar mínir ganga Laugarveginn á fjórum dögum.

Kannski hugsaði ég þetta bara yfir mig sjálf....  með heilabrotum og áhyggjum á væntanlegum flutningum.

Kannski er almættið að bjarga mér frá einhverju...

...eða sjá til þess  að ég sé á réttum tíma á réttum stað með rétta fólkinu.

Svo er  það hugsanlegt að mér komi í koll koppurinn og hlandið vegna kærileysis míns gangvart bólgnum ökla og annars krankleiks í einmitt hægri fæti undanfarið hálft ár...

Heilbrigðisstarfsfólkið sem tók á móti mér á slysa- og bráðamóttöku LSH hló að mér og bretti upp á nefið vegna óska minna yfir að vera  læknuð strax.   Þær sögðu að ég skyldi ekki ganga neitt ef ég vildi vera uppistandandi í September  og ef ég  ætlaði að trússa þrátt fyrir allt mætti ég ekki vera í lokuðum skóm og ekki framkvæma neitt heldur láta aðra um alla vinnuna.  

Eins og ég hafi skapgerð í það....

Svo átti Brjálaði Ævintýramaðurinn afmæli  og bauð upp á grill og gleði úti í móa.


annríki....

Á morgun þarf ég:

-að fara á Aukavinnustaðinn og vinna örlítið...
-að hitta GönguglaðaKúrubangsann og Fylgiskraut Óskars vegna matseðils Laugarvegsferðarinnar...
-að hitta GönguglaðaStrákinn vegna nestisins fyrir Sveinstind-Landmannalaugar...
-að elda læri handa mömmu, litlu systur og fallegasta litla frænda í heimi þar sem þau flytja inn á mig á morgun...
-að hringja í mannauðastjórann...
-að þvo göngugallann...
-að kaupa mér flugnanet...
-að pakka fyrir fjögra daga göngu...
-að hitta Smalann, BrjálaðaÆvintýramanninn, HláturHjúkkuna, Heilsuhvíslarann, SjósundsDótturina, KonunaHansFrænda og KonunaSemLítiðFerFyrir á kaffihúsi...
-að anda inn og út um nefið og hugsa um hvað það sé sem ég vil...

Ég er að verða búin að prjóna peysuna sem ég byrjaði á fyrir jól......


flutningar

Ég á svo mikið af kössum núna að ef ég þyrfti að búa í þeim þá hefði ég alveg heila blokk til umráða...

Ég er sem sagt að flytja.....

Ég hringdi í íbúðareigandann og sagði honum að ég væri hætt að búa í íbúðinni hans og vildi helst af öllu flytja út 1.ágúst.  Honum  svelgdist svo hrikalega á að hann bað um hugsunarfrest sem hann fékk en þar sem ég er ekki mjög þolinmóð kona þegar ég hef bitið eitthvað í mig ullaði ég bara á  hann þegar hann var búin að hugsa og sagðist fara NÚNA hvort sem hann vildi það eða ekki.

Framundan er því mánaðar búseta á götunni þar til ég flyt upp í sveit eða í Mosfellsbæ í leigusambúð með karlmanni.

Ég þori ekki að ræða þetta við Toppmanninn því ef hann segir mér að þetta sé heimskulegt fyllist ég af efasemdum og enda með að flytja í kústskáp sem mér stendur til boða fyrir lítin pening í hjarta borgarinnar.  Jafnvel þó að það sé við hliðina á Nördinu.

Annars er ég orðin drulluþreytt á Toppmanninum.  Það er alveg sama hvað ég væli í honum að ganga með mér á fell, fjöll, hóla eða upp brekkur hann virðir mig ekki viðlits.

En svo hringir hann bara í mig í dag og segist hafa farið í útreið án mín og það tvisvar. Hlær svo að mér og segir mér að hætta að hugsa um skólagöngu, vinna bara mína vinnu og njóta lífsins.  Og heimtar svo líka að ég hætti við göngu og komi og eyði tíma með honum um helgina.

jamm.... maðurinn elskar mig sko út af lífinu....


jamm ég veit...

...letin er bara að fara með mig.

Ég er samt búin að ganga yfir Öræfajökul, detta ofan í sprungu og setjast niður og neita að fara upp á toppinn þar sem mér fannst það við hæfi.

Ég er búin að ganga Leggjabrjót fram og til baka yfir nótt.

Ég er búin að halda upp á 49 ára afmæli mitt uppi á Þverfellshorni Esjunar þar sem ég bauð upp á franska súkkulaðiköku með öllu tilheyrandi.

Búin að fara í Þakgil yfir helgi, tjalda í Grímsnesi, baða mig í ótal fossum, klifra upp gljúfur og ganga á ótal fjöll.

En um helgina ætla ég að fara Glerárdalshringinn.....


nú líður mér vel

Ég stóð í stofunni áðan og teygði á hverri taug sem hrærist í mínum skrokki með tilfinningu fyrir því að heimurinn er minn....

Ef ekki væri laugardagurinn með væntanlegri átta tíma kennslu væri ég í afslöppun....

Ég þarf samhliða kennslu og undirbúning fyrir þessa sömu kennslu að framkvæma ýmislegt ef ég get gefið mér tíma til þess......
Þarf að mæta til augnlæknis....
þarf að mæta til læknis....
þarf að mæta til sjóntækjafræðingsins til að máta linsur....
þarf að borga einhverja reikninga....
þarf að kaupa mér eins og eitt pils og einn bol og kannski sokkabuxur....
þarf að fara í Misty að skoða undirföt....
þarf að fara með gönguskóna til skósmiðs....
þarf að versla göngubuxur....
þarf að hitta vinkonu og kannski hinar vinkonurnar líka....
þarf að hitta pabba...
þarf að þrífa hér heima, baka súkkulaðiköku og elda eins og eitt læri...
Þarf eiginlega að fara á skíði, mæta í ræktina eða ganga eitthvað langt...

....ég er alveg sannfærð um að lífið heldur áfram þótt ég sleppi því að framkvæma það sem á þarfalistanum er.....   

en þetta er kannski bara spurning um að forgangsraða.....

Ég er svöng !


Laugardagskvöld

Og ég horfi gegnum sjónvarpið á Fallegt fólk á sviði í Háskólabíó að skemmta sér yfir einhverri Eddu....

Framhaldsskólaneminn er á Hornafirði á balli svo að ég á heimili mitt ein og sér og sjálf.  Þá má ég stilla á hvaða sjónvarpsstöð sem er, hafa stillt eins hátt og ég vil og sita hvar sem mig langar....

Ég á að vera að útbúa fyrirlestur og glærur til að styðja hann en þess í stað flækist ég um netheima, horfi á sjónvarp og hugsa.   Að hugsa er oft stórhættulegt því mér dettur alltaf svo margt frábært í hug þegar ég stunda þá iðju.   Til að mynda er ég núna búin að ákveða að fara til Mexíkó að heimsækja frænku mína sem ég talaði við í dag.   Ég er líka búin að ákveða að ég á kærasta.  Jamm ég er að segja ykkur það, ég á kærasta en þar sem hann veit ekkert um það er ég ekki í sambandi....

Í gær fletti ég í gegnum fortíðina.  Ég stóð í miðri kassahrúgu sem innihélt hluti sem tilheyrðu fortíð minni og hafa legið í gleymskunardái í einhver fimm ár.   Núna hugsar einhver:  ..fimm ár án þess að þarfnast þess, þá má henda því..   Ég er ekki sammála.  Þarna var fullt af vírum og perlum og böndum fyrir skartgripagerð.  Þarna var fullt af garni svo sem sokkagarni, loðnu garni, bómullargarni og það garni í öllum regnbogans litum.  Þarna var fullt af bókum, skólabókum og það sem meira var Stærðfræðibókum sem ég hélt að væru ekki til lengur.   Þarna var líka fullt af leikföngum, barnafötum, vínilplötum og trékistlum.   Mér tókst samt að henda eins og einum fullum ruslapoka og er stolt af......

Í kvöld gæti ég verið á Thorvaldsen að æfa þessi fáu spor sem ég kann nú þegar í Salsadansi en ég nenni því ekki...
Í kvöld gæti ég verið úti á göngu í snjónum en ég nenni því ekki...
Í kvöld gæti ég verið búin að troða mér í heimsókn hjá einhverju skemmtilegu fólki en ég nenni því ekki...
Í kvöld gæti ég boðið fólki í heimsókn til mín en ég nenni því ekki...
Í kvöld gæti ég verið húsleg og gert eitthvað af þeim heimilisverkum sem nauðsinleg eru til að hægt sé að kalla heimili heimili en ég nenni því ekki...

Ég ER löt...


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband