sá er sæll sem sínu ann.....

og ég ann öllu og því hlýtur mér að farnast vill í sæluríkinu......

Ég hækkaði áhættustuðulinn í barnahallanum æi Bláfjöllum þar sem skíðakennslan fer fram um helming í dag fyrir litlu krílin.....     En ég fann jafnvægið mitt, kann að beygja og stoppa og er tilbúin í risastóru barnabrekkurnar NÆST.  Mér líður bara eins og einstaklingi sem veit að hann getur það sem hann vill.......

Þrátt fyrir að ég er með uppblásna upphandleggsvöðva og fingur beggja handa eftir að hafa halað mig upp á kaðallyftunni aftur og aftur í morgun dreif ég mig í Laugardalslaugina og synti 500 metrana.

Í Laugardalslauginni hitti ég vinkonu mína og manninn hennar og í 39°C heitum potti lögðum við drög að áætlun sem hrynnt verður í framkvæmt árið 2011.

Gleðilegan páskadag....


gæluverkefni....

Núna skoða ég möguleika þess að ég geti teiknað tröll.....

Bláfjöll í fyrramálið..... eftir það sund....   og ef það er möguleiki rölti ég út með hundinn fyrir myrkur.


ég á bágt...

Í gær gekk ég af mér hælana.   Og eina tána líka.  

Með blóðuga fætur röllti ég um litlu íbúðina mína og velti því fyrir mér hvað ég eigi að þrífa almennilega í dag.  
Mér finnst skrítið að ég skuli vera algjörlega skert af öllu hreinlætisbrjálæði og mér finnst miður að hreinsunargenin mín skulu geta vikið fyrir öllum vinnugenum, skemmtanagenum, lærdómsgenum og letigenum.
Þessi hreinsunarskerðing er mjög alvarleg  þar sem ég er alveg við það að eyðileggja sturtuna hjá leigusölum mínum.   Hún er orðin svört af myglugenum og öðrum ófögnuði sem ég hef vegna lítils áhuga á þrifum algjörlega vanrækt að hreinsa í fjögur ár. 

Í dag mun ég því vopnast þrifi, busta og svampi og ráðast í að nudda og pússa sturtuna...


villtist af leið....

...ég á að búa einhvers staðar þar sem alltaf er heitt og ekki gera neitt nema láta sköpunarmátt heimsins flæða um æðar mér.

Væri það ekki æðislegt að geta teiknað, málað, mótað og skapað það sem hugur stendur til í hvert sinn.  Að geta saumað, prjónað, heklað og orkerað.  Að geta búið til súpur, sultur, mauk og góðan mat.  Að geta bara leikið sér allt lífið út í gegn..............

Í morgun fór ég á fætur við annað hanagal og elti eina tveggja ára upp í Esjuhlíðar.  Ég verð að segja eins og er að það hæfði mér þokkalega.  Svo þokkalega að það fer að verða spurning um að ég sláist í kompaní með henni frekar en fólkinu af Mínum Vinnustað sem ætlar að ganga með mér Laugaveginn í sumar.

Eftir að hafa svo þrætt verslanir höfuðborgarasvæðisins gaumgæfileg til að finna eitt vesælt DraumaPáskaEgg, hef ég staðið á haus við hreingerningar.     Hreinlætisbrjálaði mitt gekk svo langt að allir matarskápar heimilisins eru tómir.   Allt sem fannst í þessum skápum með B.F.2008 fékk fyrningu.  

Á morgun ætla ég að ganga í og úr vinnu og ef vel viðrar fer ég á skíði í Bláfjöllum á laugardag eða sunnudag......


ég er hvatvís.....

Yfirleitt þegar ég framkvæmi eitthvað geri ég það án þess að velta fyrir mér langtíma áhrifum þess.  

Ég geri það bara vegna þess að það er kúl og ákkúrat það sem mig langar til NÚNA.
Hvort það sé gáfulegt eða hafi einhverja ókosti í för með sér.......hef ég ekki áhyggjur af enda trúi ég því að tíminn einn geti leitt það í ljós........

 - ÉG Á VESPU -


páskar framundan..

Ég er í fríi um páskana......

Á morgun get ég farið og keypt mér páskaegg, planað veislumáltíð og þrifið heimili mitt hátt og lágt.  

Þangað til þá hef ég svo mikið að gera að ég svitna við tilhugsunina...


höfnun...

Ég undirbjó mig fyrir að eiga við smáan einstakling sem myndi gera allt til að halda sér vakandi þar til mamman kæmi heim....

Ég hlakkaði til að fá að lesa barnabókmenntir fram á nótt, hlæja brjálæðislega að hoppandi smábarni með blik í augum yfir eigin ágæti og...... að syngja eða tala þetta kríli inn í draumaheiminn löngu eftir miðnætti.

Aparassinn aftur á móti hringaði um sig í fangi mínu stuttu eftir að foreldrarnir yfirgáfu svæðið og sofnaði.   Þetta sama skrípi vaknaði upp um miðnætti og grenjaði yfir því að ég vildi ekki setja hana á brjóst og heimtaði mömmu sína í tíu mínútur en gafst þá upp og hélt áfram að sofa.

Ég hefði alveg verið til í meiri samskipti...........


vertu ekki að horfa svona alltaf á mig......

Ég prjónaði mér sjal og tíndi því.....

Ég fékk peninga og eyddi þeim....

Ég vaknaði í morgun og kem til með að sofna aftur rúmlega í lok þessa dags....

Vinnudagurinn í dag gekk út á leigubílarúnt í hafnarfjörð, fram og til baka, og rölt út í Hagkaup.
Seinnipartur dagsins fór í magninnkaup á partýfæði fyrir Grunnskólanemann, undirbúning, eldun og framreiðslu á hráefninu.
Og kvöldinu mun ég eyða við að horfa með aðdáund á yngra barnabarnið, hreyfa sig, babla og anda.

En undirbúningur fyrir tíu tíma kennslu á morgun hefur einhvern veginn runnið út í sandinn.....


líf.....

Ég lifi leikrænu lífi annars lagið....

Í gær mætti ég á Minn Vinnustað....  ekki merkilegt í sjálfu sér nema þá að ég gerði heiðarlega tilraun til að láta inniliggjandi sjúklinga hlaupa gabb.   Ég sagði þeim á morgunfundi sem ég stjórnaði að það væri frítt í sjálfsalana niðri allan þann dag og um að gera fyrir þá að nýta tækifærið.  Eftir vinnu hentist ég svo móð og másandi á eftir nöfnu minni elliðaárhringinn.   Og um kvöldið fór ég í heimsókn til Tenórsins en hann bauð mér í mat ásamt vini sínum og eiginkonu hans.  Ekki merkilegt í sjálfu sér nema hvað að ég er ekki vön að umgangast karlmenn sem kunna að elda mat.  Þar fyrir utan leið kvöldið við gítarspil, píanóleik, söng, hlátur, gleði og skoðanaskipti.....

Í dag hugsaði ég um barnabarnið.

Þegar líða fór á kvöld hentist ég í bónus til að auðvelda líf mitt á morgun en þá kemur Grunnskólaneminn til með að bjóða vinkonum heim í mat og auðvitað mitt að versla inn.
Nema, þar sem ég stóð við kassann í versluninni búin að raða öllu hráefninu í þrjá troðfulla höldupoka og afgreiðsludaman að taka við greiðslukortinu mínu fæ ég bara ískalda gusu framan í mig þegar hún segir:  Kortið þitt er útrunnið...
Ísinn, fallega páskaeggið sem ég hafði mikið fyrir að velja, lifrapylsan sem ég ætlaði að troða í mig núna, jarðaberin, mjólkin og allt hitt varð eftir í búðinni og ég hafði engin tök á að ná um peninga svona löngu eftir bankalokun....


ég veit.....

........stundum hvað ég vil en þess á milli ráfa ég ráðvilt um.

Eina sem stendur mér fyrir þrifum samt virkilega er að fá ekki alltaf allt sem ég vil.    Núna langar mig til að mynda í píanóið mitt, gítar og munnhörpuna.   Ég vil líka hafa nægan tíma til þess að leika mér að þessum leikföngum. 
Síðan langar mig í flotta myndavél og þá meina ég myndavél með aðdráttarlinsum og alles.

Ég hef ennþá heilan helling að gera og veit bara ekki fyrir mitt litla líf hvað af því ég á að framkvæma fyrst..  ........fara yfir verkefni, bóka fyrir vsk, klára að prjóna sokkana, teikna myndina sem situr inni á augnlokum mínum, undirbúa kennslu á laugardag, þrífa heimilið, borða súkkulaðikökuna mína, skrifa bréf eða lesa bók.

Ég ætla inn í rúm til að 'hvíla augun'.....


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband