dagar

Ég veit ekki hvað ég vill segja ykkur mikið í dag.  

Ég er búin að gráta, hlæja innilega og blóta hálfum heiminum á þessum merkisdegi.  

Í upphafi dags var kvennvitund mín í algjöru hámarki og magnleysi mitt gangvart  ógnþrunginni alvöru lífsins við það að bera mig ofurliði.
Þetta vonleysi leysti úr læðingi grátur minn.....

Ég fékk boð frá barnabarninu um hádegi að hún myndi dansa á árshátíð skólans hennar þá um kvöldið og að ég væri velkomin ef ég vildi.  Auðvitað keyrði ég í brjáluðu snjókófi til að bera hana augum í fimm mínútur á sviði og svo var hún bara farin heim að sofa þegar leiksýningu lauk.   
Leiksýningin leysti úr læðingi hlátur minn.....

Þegar heim kom núna við náttmál beið mín bréf þar sem fortíðin beit í rassgatið á mér.
Bréfið leysti úr læðingi reiði mína....

Annars er það af deginum að segja að öll börnin mín mættu í kvöldmat til að fagna sextán ára afmæli Grunnskólanemans.   

Ég gerði eins og venjulega allt sem mig langaði til án þess að hugsa fram fyrir nefið á mér og verð því víst að súpa seyðið af því þegar þar að kemur...............


týra....

.....allra minnsta pínu ponsu barnið mitt er orðið sextán.

allt hefur sinn tilgang....

Magnað kvöld þetta kvöld í kvöld.   Kvöld sem saman stóð af tónleikum, myndlistasýningu, matarboði og upplifun á að vera staddur í veröld sem maður hefur aldrei stigi fæti í áður....

Reyndar var helgin öll mögnuð.    Föstudagskvöldið var notarlegt kvöld með strákunum þar sem bjór var drukkinn, málin rædd og tekið hraustlega á því.   Eitthvað flassbakk á ég samt um nakinn karlmann, kúst og fægiskóflu og  að vera nefnd ,,asni" opinberlega.  Ekki vildi ég fyrir mitt litla líf hafa misst af því að kynnast þessum strákum.  Toppmaðurinn, ArtDan og VísaStrákurinn eru kjarna karlar.....

Ég stefni svo á að bjóða hafrúni í súpu.   Þessa appelsínu-tómat-súpu sem enginn vildi borða með mér á föstudagskvöld... hvenær ertu laus vinkona......


fúx

Í raun vildi ég geta hugsað til þess að vera í það minnsta semí í öllu sem ég tæki mér fyrir hendur en það er orðið kristaltært að ég er lélegust af öllum á þessari önn.

Þið skuluð ekki reyna að hafa fyrir því að klappa mér á öxlna, hlægja að mér eða reyna að telja mér í trú um að ég hafi alltaf sagt þetta og samt haft einkunnina 7 eða hærra.

Í dag er ég Fúx.   Þegar mér varð ljóst í dag í hvað stefndi sagði ég mig úr öllum fögum, skráði mig í þau aftur næsta haust og sótti um skólavist í öllum öðrum skólum landsins sem mér datt til hugar að gæti verið áhugavert að stunda nám við.

Núna velti ég því fyrir mér hver hefði hugsanlega áhuga á því að borða tómat-appelsínu súpu með mér í kvöld, drekka með mér úr eins og einu rauðvínsglasi og tala um heima og geima langt fram eftir nóttu.

Ég velti því líka fyrir mér hvort það teljist ekki til hollrar hreyfingar ef ég sný mér að heimilisþrifum í dag.   Skúri allt húsið og þrífi gluggana að utan sem innan........


nostalgía...

....áðan strauk ég hinstu hvílu litla bróður vinkonu minnar.

Grær yfir leiði, grær um stein,
gröfin er týnd og kirkjan brotin,
grasrótin mjúk, græn og hrein
grær yfir huldufólksins bein.
Grær yfir allt sem áður var,
ástin mín hvílir nú þar
,

... söng Kristján Eldjárn og Kristjana.  Ég fékk tækifæri til að knúsa þá sem eftir standa vitandi það að allar líkur eru á því að við sjáumst ekki aftur nema þá til að senda koss og hlýjar kveðjur gegnum tréð sem að endingu umlykur okkur öll eða taka við þeim þar sem okkar draumastaður er......

Við vitum öll að leiðinni lýkur.  Að leiðinni lýkur jafnt fyrir okkur sem öðrum og ástæðulaust að liggja í sorg eða sút þegar maður stendur frammi fyrir því að þurfa að kveðja einhvern.   Ég er samt búin að sitja og vatna músum í dag yfir dapurlegu fráfalli allt of ungs drengs og dauðadrungi hefur haft áhrif á gleði mína undanfarna daga....

Einhvers konar eftirsjá yfir því sem var, er eða verður.............


eymd

.. ég lifi í sjálfsvorkun meðan ég bíð eftir að breytast í ofurkvendi. 


semí-fullorðin

það eru sjö dagar þar til litla barnið mitt nær fyrrverandi fullorðinsmannatölu...  svo ætli ég verði ekki að venja mig við að ég ræð enn og það í tvö ár í viðbót. 

Núna geri ég ekkert nema leita
Ég leita að afmælisgjöf, ökuskóla, ökukennara og einhverjum sem nennir að gera við bílinn minn...
Svo leita ég að Vespu og það helst ekki Kínverskri heldur alvöru Ítalskri...
Ég leita líka að íbúð og það helst höll fyrir ekki neitt.
Og eins og alltaf leita ég að efni til að kenna...

Morgunmaturinn minn samanstóð af hafragraut, ristuðubrauði og kaffisopa...  og leit að Grunnskólanemanum þar sem hann virtist hafa gufað upp af yfirborði jarðar.

Í dag er það kennsla, á morgun er það kennsla, síðan er jarðaför á fimmtudag og eftir það frí þar til fríinu mínu lýkur á mánudagsmorgun klukkan áttahundruð.

Ætli það sé komið vor.....


Hólaskóg

....helginni eyddi ég í dreifbýlinu við gönguskíðaiðkun, skoðun á umhverfinu og samveru við yndislegt fólk.

....í dag eyði ég deginum í streitu og stress.   Kennsla, bókhaldsvinna, uppeldi og leiguíbúðaleit blasir við mér auk þess sem ég verð að henda inn eins og tveimur skattskýrslum áður en dagur rennur.

....planið um að komast í eins og eina göngu, borða eitthvað hollt og sofa nóg er bara ekki alltaf að gera sig.   Í gær missti ég mig í át.  Ég nánast át allt sem á vegi mínum var... nammi, brauð, köku, kjöt, morgunmat og hvað eina og þegar ég kvartaði í Grunnskólanemann sagði hún bara:  ...hvað þetta er nú í lagi eins og þú ert búin að hreyfa þig á gönguskíðum um helgina, þú þarft bara á þessu að halda..   Sjálf segi ég:  ...þetta hlýtur að sleppa eins mikið og ég ældi öllu ofátinu á leið minni gangandi utan um Kársnesið í gærkveldi...  hafrún... kannski fetanum um að kenna.

Ég er með álagseinkenni í vöðvum, vöðvafestum og öllum liðum líkama míns í dag.


aldur

Á morgun mun vinkona mín verða lögleg í Rauðhettuklúbbinn og af tilefni þess munum við leggja land undir fót og halda á vit Íslands....

Í farangrinum verður svefnpoki, gönguskíði, lopapeysur, myndavélar, gönguskór og húfur. 

Auk þess verður eitthvað matarkyns, drykkjaföng og lítið eitt af afþreyingar dóti með í fararteskinu og fjöldinn allur af vinum og vandamönnum.

LaukurÆttarMinnar mun flytja inn á heimili mitt í fjarveru minni til að koma í veg fyrir að Grunnskólanemanum finnist hann afskiptur, að barnaverndanefnd fari að fletta fingur yfir uppeldisleysi mínu og að nágrannarnir þurfi ekki að upplifa hávært, stjórnlaust unglingapartý.

Á sunnudag kem ég svo heim þreytt, sæl og ánægð og held áfram með líf mitt.....


ég er...

... og þess vegna er ég kona.

Áðan lagði ég leið mína í búð þar sem ég fjárfesti í utanfótastyrktum-gelpúða-strigaskóm á mig.   Næst þegar ég fer í búð ætla ég að fjarfesta í ilmvatni og maskara.   Seinna meir mun ég svo leggja peninga í alvöru skó, buxur og útivistafatnað.

Ég pantaði tíma hjá lækninum mínum í dag en þar sem hún er í námsleyfi fæ ég ekki tíma fyrr en 20.apríl.  Þangað til ætla ég að gera ráð fyrir að ég sé alheilbrigð og borða ís þegar ég vil.

Líf mitt snýst um hreyfingu á hverjum degi, hollt mataræði og undirbúning fyrir kennslu....     til að fá hreyfingu mæti ég þrisvar í viku í vinnuna til vinkonu minnar og geng þar upp á tuttugustu hæð.   Meðan ég geng upp á þá tuttugustu ímynda ég mér að ég sé hreystimenni meðal hreystimanna og að það sé ekki hverjum manni fært að ganga upp um tuttugu hæðir án þess að örmagnast........  síðan sit ég heima hjá mér og hugsa um hvað ég eigi að gera til að fá meiri hreyfingu.   Hvort ég eigi að ganga Kársnesið þrisvar sinnum í viku eða hvort ég eigi að taka hjól traustataki og hjóla tvisvar í viku eða hvort ég eigi að ganga á fjall einu sinni í viku, ganga í vinnuna, mæta í sund á hverjum morgni eða mæta í leikfimissal til að lyfta lóðum.....

Yfirleitt þegar ég er búin að hugsa svona mikið er ég orðin þreytt, það er komin nótt eða tími til komin að mæta í vinnu....


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband