á drápsvél

Fyrir utan það að ég fór á fætur klukkan sex í morgun, bara til að fara á fætur, var dagurinn í dag síður en svo eins saklaus og upphafið...

Í morgun hafði ég þá staðföstu einurð í brjósti mér að mæta í vinnu vel tímanlega.  Svo að þegar klukkuna vantaði tuttugu mínútur í átta fór ég vopnuð vetraklæðnaði og rúðusköfu til að fullkomna ætlunina.  Í stuttu máli sagt, endaði með því að ég ók undir verulega hættulegum aðstæðum alla leið á Minn Vinnustað með skelfilegar hugsanavillur greiptar á augnlokin.....  Þar sem ég ók sem leið lá með aðra höndina upptekna við að halda bílhurðinni í skorðum, snjóinn af húddinu fjúkandi upp á rúður án þess að rúðuþurrkurnar næðu að tryggja mér viðunandi lágmarks útsýnis dansaði fyrir augum mér alls kyns hryllingsmyndir af þeim blóðuga vígvelli sem ég mundi skilja eftir mig ef ég missti tökin á aðstæðum.

Er það ekki lögbrot að eiga svona bíl.....


ég á herðfisk...

...svo núna sit ég fyrir framan tölvuna mína og naga bitana meðan ég velti því fyrir mér hvað eigi að vera á næstu glæru.
Í sjónvarpinu eru Spaugstofumenn eitthvað að grínast, hundurinn liggur einn inni í herbergi og hugsanir mínar reika út og suður.
Mest velti ég því fyrir mér hvort ég verði búin að taka til áður en gestirnir mínir koma um næstu helgi, hvort ég verði búin að undirbúa alla kennslu fyrir fimmtudag áður en ég fer í bíó með Tenór og hvað ég eigi að setja á prjónana þegar sjalið klárast... 
En ég er líka að velta því fyrir mér hvort ég eigi að standa upp og raða í uppþvottavélina, skella mér í sturtu og hengja upp úr þvottavélinni.

Voðalega á ég erfitt með að einbeita mér að einu málefni í einu......


ég er frekar einföld sál...

Um helgina réði ég mér alveg ein og sér og sjálf......   Ég átti nánast frí í helgarfríinu alla helgina og svo var Grunnskólaneminn á Hornafirði og Tenórinn eyddi helginni á Akureyri.

Helgin fór því í frekar einfaldar þarfir mínar svo sem eins og að raða blöðunum í stofunni minni, borða á KFC og hlusta á disk Óskars Guðna Lífsins Línudans en á honum syngur frænka mín hún Heiða eitt  lag, ÁST Í FJARLÆGÐ. sem ég er búin að syngja með henni í allan heila dag.

Reyndar rölti ég út í dag til að borða kökur með ættingjum og vinum í tilefni afmælis einnar frænku minnar sem varð 22ja ára í vikunni og eftir það rölti ég eftir bílnum mínum sem ég skildi eftir fyrir utan hjá Bifvélavirkjaframhaldsskólaleigubílsjórakennaranum í gær þegar Jeppaklúbbsfélagarnir hittust til að skipuleggja líf sitt í sinni nánustu framtíð.

Á þessum fundi fékk ég viðamiklar upplýsingar um hvað þarf til til að ég komist Laugaveginn á tveimur dögum í sumar.    Ráðleggingarliðið horfði gagnrýnum augum á mig og sagði:  þú þarft að geta gengið greitt í tíu tíma þó byrjunin sé upp á móti og svo upp og niður og upp og niður að skálanum..  síðan setti það í brýnnar og spurði:  ætlar ÞÚ að leiða hópinn?  

Málið er víst að æfa sig upp í hraða Útivistagönguliðsins sem gengur Elliðaárhringinn á mánudögum og fjallast svo með þeim þegar vorar eftir því sem ég kemst næst....


kleppur er víða....

Ég verð alltaf fráhverfari stjórnmálum eftir því sem ég horfi meira á umræður í sjónvarpssal.  Þetta einstaklega ábyrga fólk berst hvert og eitt fyrir gæluskoðunum sínum og notar til þess orð og ósögð orð eins og þessi dagur sé þeirra síðasti........

Ég fæ bara einhvern kjánahroll sem hríslast niður eftir bakinu á mér þar til ég get ekki lengur sitið kyrr og stend upp og slekk....

Þar sem það styttist óðfluga í kosningar verð ég að öðlast fatt og það fatt verður að koma fljótt svo að ég geti öðlast trú og baráttuvilja fyrir því sem ég vil....

Ég ætla seint að öðlast eitthvað stjórmálavit.....


mig vantar eldhús í passlega stórri íbúð...

Vinkona mín treður á fingrum mínum...  eiginlega stappar hún fast á naglaböndunum, svo fast að mig svíður undan.  

Ég hamast við að hanga í íbúðinni sem ég er í án þess að hugsa um:  -parketið sem er að springa upp frá svalahurð og inn að eldhúsi, -skápahurðunum sem vantar í eldhúsið, -ofnunum sem virka ekki, -háu rafmagnsreikningunum og þeirri staðreynd að leiguverðið er langt yfir eðlilegum mörkum..
Vinkona mín aftur á móti hringir og röflar:    -ertu búin að heyra í manninum með íbúðinni á Kópavogsbraut, -ertu búin að skoða einhverja íbúð, -ertu búin að hringja í fleirri aðila og svo framvegis.

Þetta er bara áreiti......


stundum á ég fullt í fangi með að vera ég....

Þá hef ég áhyggjur af:
-Grunnskólanema....  Hún er til að mynda á leiðinni til Hornafjarðar núna með ungum pilti og í brjáluðu veðri.
-peningum.....  Buddan mín er svo tóm  að það dugar ekki lengur að vinda úr henni.  Það dropar ekki neitt.
-dugnaði mínum....  Hér hleðst allt upp að verkefnum sem enginn nennir að klára.  Ullarsokkum sem eftir er að ganga frá endum á, hálfkláruðum prjónasokkum, vettlingum og lopapilsum.
-draslinu....  Ef ekki verður tekið til hér fljótlega fer að vaxa arfi, kvikna líf eða hlaðast fyrir dyrnar.
-bókunum....  Ég bara verð að fara lesa eitthvað af þeim áður en blekið eyðist upp og blaðsíðurnar verða auðar.
-íbúðarmálum.....  Mig langar svo mikið í alvöru eldhús að ég er við það að missa mig.
-strákum....  Afhverju hringir hann ekki........

En þar sem ég er ég veit ég fyrir víst að ég verð búin að gleyma þessum áhyggjum áður en þær ná að verða til vandræða, sit ég hér með sæluglott á andlitinu við tilhugsunina um að framundan er heil helgi í helgarfríi.


ég er með margt á prjónunum...

Ég ætla að labba Laugaveginn...  Ég ætla að labba Laugaveginn með einstaklingum sem vinna á Mínum Vinnustað þegar helmingur íslendinga ætlar að hlaupa þessa sömu vegalengd.

Ég ætla líka að labba Fimmvörðuhálsinn, á Baulu, Skjaldbreið og á annað hvert fell, fjall, hæðir og hóla sem ná áleiðis til himins í nálægð Reykjavíkur.

Ég ætla að prjóna mér lopapeysu, stelpunum kjóla og vinum mínum sokka og húfur....

Ég ætla að hekla mér sjal, teikna mér mynd og baka mér köku.

Mig langar til Færeyja...


zZzzz.....

Ég er þreytt.....

vill einhver eiga hundinn minn ?

Mig langar í íbúð með alvöru eldhúsi.

Ég er búin að finna hana, má fá hana en ég má ekki hafa hund né hunslíki í henni......

Þau falla svo hægt, þessi hljóðu tár,
þessi hljóðu tár út í myrkrinu svarta,
samt tákna þau þjáningar hins þrautpínda lýðs
og þjáningu og kvalir í mannlegu hjarta,
samt boða þau hefnd fyrir böl og skort,
og bölvun og dauða yfir heimsbyggð alla.
Og þau brenna af hatri, hin hljóðu tár,
hin hljóðu tár, sem í myrkrinu falla
steinn steinarr

gæluverkefni

Í vinnunni í dag lauk ég við verkefni sem ég hef verið að vinna að á milli stunda á Mínum Vinnustað....

siminn 079

Ein af hetjunum á vinnustaðnum fólst svo á að gerast fyrirsæta....

siminn 081

Ég veit ekki hvað ég á að taka mér fyrir hendur á næstunni....  fjöldaframleiðslu....  hulstur fyrir dýrmætið...  bikiní...

Ég er farin út í ísbúð


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband