28.11.2009 | 21:33
kertalogi...
....vísar mér veginn núna. Þar af leiðandi flökta ég eins og reikull róni.
Einn vinur minn sagði einu sinni: ,,þetta er allt í hausnum á þér" og ég er sannfærð um að hann hefur rétt fyrir sér. Það gerir þetta samt ekkert auðveldara.
Mig langar... og ég vil... og ég hef engan tíma til að bíða eftir að fá... þar af leiðandi eyðilegg ég þá möguleika mína sem ég hugsanlega kannski átti.
Ég veit ekki hvort ég á að spýta í lófann og halda áfram eða setjast niður með hendur undir kinn og væla.
En það kemur í ljós......
Auðvitað hef ég komist með nefið í blað sem segir frá hinni 90 ára gömlu Reginu Brett frá Ohio sem skifaði niður 45 atriði sem lífið hefur kennt henni. Nokkur af þessum atriðum komu við kaunin á mér....
-Vinnan þín mun ekki sjá um þig þegar þú verður veik. Vinir þínir og fjölskylda munu gera það. Vertu því í sambandi við þau..
Svo ég er búin að hringja í öll börnin mín og stefni á samræður við aðra ættingja mína eins og efni standa til. Ættarmótsplan er komið upp á borðið og ég er farin að strjúka heimilisfangabókinni minni. Eins gott að ég komi mér í mjúkin hjá þessu liði svo að það hugsi almennilega um mig þegar þar að kemur.
-Ef samband þarf að vera leynilegt, þá áttu ekki að vera í því.
Strákar látið mig í friði framvegis nema þið séuð tilbúnir til að taka á því.. því ég mun öskra út í tómið allar staðreyndir um það sem á milli okkar fer.
-Mest áríðandi kynfærið er heilinn.
Ég er enn að reyna að átta mig á því hvað þetta þýðir en ég efast ekki um að þetta er mjög mikilvægt fyrir mig að skilja og læra.
Á meðan ég bíð eftir hugljómun sem fleytir mér áfram til fullnægjandi lífs, prjóna ég vettlinga, grifflur og sokka og les bók paulo coelho ,,Nornin í Portabello". Ég er líka með hugann flöktandi í átt til jólaljósa, smákakna og jólagjafa. Í tölvunni ómar rödd Ragnheiðar Gröndal um ást, trú og líf, uppvaskið bíður mín og ég er á leið í bað......
-Allt sem skiptir máli í lokin er að þú hafir elskað-
Athugasemdir
Kertalogi þarf ekkert að flökta - hann getur vísað manni veginn á rólegan og yfirvegaðan hátt.
hvað er þetta "allt" í hausnum á þér? Er ekki allt í hausnum á manni? Allt sem maður gerir byrjar í hausnum (byrjar með hugsun) "maður er það sem maður hugsar" Það er mín skoðun (kemur úr bókinni, Skyndibitar fyrir sálina).
En það vantar ekki húmorinn hjá þér Elín og hafðu það gott yfir helgina
Sigrún Óskars, 28.11.2009 kl. 22:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.