4.12.2009 | 00:43
langur vinnudagur...
....fyrir konu sem nennir varla að vinna nokkurn skapaðan hlut.
Á leið minni heim í kvöld heillaði ég KONU upp úr skónum. Þessi tiltekna kona settist hjá mér þar sem ég sat og prjónaði á hlemmi. En ástæða þess að ég var stödd á hlemmi einmitt í kvöld var vegna þess að ég nennti ekki fyrir mitt litla líf að labba heim eftir sextántíma vakt. Nema hvað.... þessi kona sest hjá mér og segir: ..svakalega ertu dugleg.. og auðvitað þurfti ég að ræða við hana um þessa yfirlýsingu hennar.
Þar sem ég sat og skiptist á skoðunum við þessa alveg bláókunnugu konu hafði ég haft augun á ungri stúlku sem sat á öðrum bekk að tala í síma og var greinilega að reyna að fá viðmælanda sinn til að kaupa tölvu sem hún sat með fyrir framan sig og reyndi að lesa af einhverjar upplýsingar sem þessi viðmælandi vildi greinilega fá.
Í miðjum samræðum mínum um dugnað minn tók ég eftir því að unga stúlkan var hætt að tala í símann sinn svo ég lagði frá mér prjónadótið, stóð upp og sagði hátt og skýrt ..komdu hingað stúlka og faðmaðu frænku þína aðeins.. Þessi elska kom auðvitað strax en sagði þar sem hún stóð fyrir framan mig ..ertu viss um að þú viljir það?.. Eftir knús og tárvota kossa út og suður og yfirlýsingar um að frænkur séu alltaf frænkur og að allir verði að ná sínum botni og eitthvað þannig, yfirgaf ég litlu frænkuna mína og fór upp í strætó. Í strætó sat ég og hugsaði um orð heilluðu konunar sem ómuðu í höfði mínu: ..vá, en fallegt..
Ég verð bara að segja eins og er... mér fannst þetta bara ekkert fallegt... mér fannst þetta alveg frábært. Frábært að hafa hitt á litlu frænkuna mína og haft tækifæri til kyssa hana og knúsa og segja henni að þrátt fyrir allt og allt sé hún æðisleg og að mér þyki alltaf jafn vænt um hana.
Ég viðurkenni það samt fúslega að tár láku niður kinnar mínar í stríðum straumum í strætó þegar ég hugsði: .. hvað ef..
Athugasemdir
þú ert yndisleg
Sigrún Óskars, 4.12.2009 kl. 12:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.