24.12.2009 | 13:23
jólin sjálf....
....eru runnin upp.
Og í stað þess að vera á fullu að pressa föt, hafa áhyggjur af matseld, hreinum gólfum og að allt sé nú örugglega á sínum stað sit ég bara og prjóna.
Þegar líða fer að aðfangadagskvöldinu sjálfu mun ég klæða mig í betrifötin, rölta heim til vinkonu minnar og keyra þaðan sem leið liggur í Hafnarfjörð til að njóta kvöldsins í félagsskap smáverunnar í þessari fjölskyldu.
Á morgun á ég svo von á að megnið af mínum börnum heiðri mig með nærveru sinni yfir hangikjötsdisk og emmesís. En eftir það tekur við vinna fram á næsta ár......
Fyrir þessi jól gerði ég ekkert frekar en önnur jól í lífi mínu en þegar komið er að jólahaldinu sjálfu á ég mér alltaf stórar fyrirætlanir um hvernig aðförum að næstu jólum skal háttað. Á næstu jólum skal sko það vera gert sem mig langar alltaf svo mikið til að hafa framkvæmt en kem aldrei í verk vegna anna, eða þannig......
Ár eftir ár þvælast þungar hugsanir fyrir mér á Þorláksmessudag. Svo þungar hugsanir að ég framkvæmi yfirleitt lítið annað en að vatnamúsum fram eftir degi. Þetta árið hugsaði ég mikið um hvað ég þekki börnin mín lítið í raun. Ég veit ekkert hvað þau eiga í eldhússkápunum sínum, hvað þeim vantar eða hvað þeim langar í. Ég veit ekki hvað þeim finnst skemmtilegt að hlusta á, horfa á eða að framkvæma. Ég veit bara ekkert um hvað þeim vanhagar um eða hvað þau þrá að fá. Kannski er það eðlileg framvinda lífsins en þetta er alveg himinn og haf frá því sem var þegar þau voru yngri....
Draumar mínir snúast um betri framkvæmd fyrir næstu jól, stífar æfingar fyrir væntanleg afrek komandi sumars og Toppmanninn en hann þvælist reyndar bara fyrir í martröðum svefns og vöku....
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.