26.12.2009 | 18:23
stefnumót......
...talar NýungagjarniStrákurinn um og sendi frá sér þrjár greinar um þá íþrótt. Ég er auðvitað búin að lesa þessar greinar, hlæja að einhverju í þeim, pirra mig á öðru og gera mig klára til að læra eitthvað af þeim líka.
Ég veit lítið sem ekkert um þessa íþrótt þar sem ég er búin að vera meira og minna gift síðan ég man eftir mér. Eftir að ég skildi komst ég upp með það að fá nánast allar mínar þarfir um samvistir við karlmenn fullnægt með vinnufélögum af Mínum Vinnustað en þar hefur nánast flætt út af vel samvistarhæfum strákum á öllum aldri. Toppmaðurinn, Nördið, ArtDan, GunniGötustrákur, GrískaGoðið, Ljósmyndarinn, AA-gaurinn, Satistinn, Sá-Sturlaði, Meistarinn, KanadískiBallettdansarinn, GunZ, Tónlistargaurinn með meistaragráðu í fréttameðferð, KjötiðnaðarTónlistagaurinn, Maðurinn sem á allar íbúðirnar og allir hinir af öllum hinum deildunum, hafa allir sem einn brosað til mín og gert mér lífið meira bærilegt en ella. Eftir að ég gekk í félagsskap þeirra einhleypu tekur það sama við eða allt fullt af mögnuðum einstaklingum sem gæða líf mitt lit. Hittingur á kaffihúsi, í bíó, heima hjá einhverjum, í göngu eða bara á einhverri samkomu í hvaða nafni sem er og yfirleitt í hóp. En aldrei hefur þessi hittingur leitt til alvöru Stefnumóts.
Málið er að eftir að ég las greinar NýjungagjarnaStráksins veit ég afhverju....
Það er ekki bara það að ég bið stáka sem ég þekki ekki neitt um að giftast mér eða hangi utan um hálsinn á strákum og bið þá um að koma heim með mér að *bíp* heldur geri ég allt rangt miðað við tillögur greinanna.
Ég mæti sveitt og skítug á fyrsta hitting og við gerum faslega ráð fyrir að það þurfi einhvern fyrsta hitting sem kalli á boð um stefnumót....
Ég mæti iðulega á slitnum strigaskóm, í lopapeysu og íþróttafatnaði eða bara í þægilegum fötum.
Ég mæti ómáluð og ótilhöfð. Þ.e.a.s. ekki með plokkaðar augnabrýr og lituð augnahár, ekki nýklippt eða með litað- strípað- eða greitt hár og ekki í sérvöldum tískufatnaði.
Ég mæti alltaf á réttum tíma eða örlítið fyrr.
Ég horfi á allt og alla sem í kringum mig eru og það af áhuga.
Ég vil athygli og geri því það sem þarf til að komast að því hvort ég hafi hana.
Ég er bara ég sjálf og ef í því fellst að borða matinn fyrir framan mig með fingrunum, grenja, hoppa á milli gangstéttabrúna eða sveifla mér með vindinum þá geri ég það.
Ég hef ekki vit á miklu en í návistum við sæta stráka veit ég minna en ekkert og auk þess er ég alveg skert þeim hæfileikum að skilja eitthvað óráðið sem gefið er í skyn á einn eða annan hátt. Mér dugar ekkert minna en hrein og bein orð um það sem þarf að segja,
Ég hef enga þolinmæði gagnvart því að bíða eftir einhverju og ef ég vil eitthvað þá vil ég það.
Ég sé að ég þarf sko NÁMSKEIÐ.......
Athugasemdir
skemmtileg færsla - þú hefur svo góðan húmor
Sigrún Óskars, 26.12.2009 kl. 21:55
Vertu bara þú sjálf Ella mín, yndæl eins og þú ert. Þeir sem ekki þola það, eiga ekkert inni hjá þér.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 27.12.2009 kl. 21:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.