ólétt

Ég er skíthrædd við tannlækna.  Ekki bara að þeir tæmi alveg peningarveskið mitt sem er ekki feitt fyrir, heldur er ég sannfærð um að verkkunnátta þeirri nái ekki svo vítt að þeir viti alveg til fullnustu hvað þeir eru að gera þegar þeir byrja að troða einhverjum deifilyfjum í örfína taugaþræði í tannholdi MÍNU.  Ég er bara alltaf dauðhrædd um að nú drepi þeir mig.  Núna sé skiptið sem þeir sprauta eitthvað vittlaust og vit mín bólgna svo að ég kafni.  Eða þá að það sem þeir eru að sprauta í mig hafi áhrif á virkni hjartans og vegna minnar sérstöðu í henni veröld verði ég fyrir því að þola ekki það áreiti....

Þess vegna fer ég ekki til tannlæknis nema ég sé tilneydd.

Í dag átti ég peninga og var ákveðin í að eyða einhverju af þeim í tannlæknirinn minn.  Tannlæknirinn minn er kona og þessi tiltekna kona er komin sjö mánuðu á leið.  Sem kemur þessari sögu ekkert við en mér finnst það bara svo krúttlegt.  Nú hún reif úr mér tvær tennur og saumaði svo fyrir og bannaði mér að hlaupa, borða og halda á þungum hlutum í allan dag.  En áður en hún var búin að sauma og leggja mér línurnar um hvað ég mætti og mætti ekki, braut hún í mér tönn.  Jamm...... og svo segir einhver að tannlæknar séu ekki hættulegir.   Ekki bara að hún bjó sér til verkefni þarna, heldur er það kosnaður upp á áttatíu þúsund fyrir mig að fá byggða krónu á þessa tilteknu tönn sem er sko stór biti fyrir fjárhag einstæðrar móður í leiguíbúð á frjálsum markaði.

Ég er og verð hrædd við tannlækna....


gleði

Klukkan er að verða hálf eitt og ég sit hér við eldhúsborðið mitt með matardisk fyrir framan mig og hvítvínsglas.   Matardisk með steiktum fiskibollum á grænmetisbeði og flatbraussneið með smjöri.

Maðurinn í fiskibúðinni horfði forviða á mig þegar ég keypti þrjár bollur úr borðinu hans.  Hann vissi heldur ekki sem var að ég yrði að fá almennilega máltíð til að geta haldið upp á að ég er búin með afstemmingar fyrir fyrirtækið mitt.

Núna sit ég líka við mataborðið mitt með sæluglott á andlitinu og ætla sko ekki svo mikið sem hugsa til vsk-skilanna á mánudaginn fyrr en í fyrsta lagi í kvöld.

Það er sko vel í lagi með mig......


óunnið verk

Eftir að vera búin að sita í hálftíma fyrir utan einn grunnskóla borgarinnar að bíða eftir samnemendum mínum á Menntavísindasviða HÍ fór ég inn í skólann þar sem ég hitti skólastjórann að máli.  Eftir þau samskipti klóraði ég mér í hausnum og í maga mér fór að myndast hnútur.....   

Þegar ég kom svo heim, komst ég að því að ég sat ekki fyrir framan rétta skólann í þennan hálftíma eða ekki fyrir framan þann skóla sem við höfðum í upphafi komist að samkomulagi um að hittast í.....

Ljóska?

Elli?

Reyndar kom þetta ekki að sök, því sú ólétta úr hópnum okkar var veik og málinu var frestað fram eftir vikunni...


hvað lengi

Ég get orðið pissað eins og kona. 
Ég get orðið sitið í stól án þess að grenja þegar ég stend upp.
Ég get orðið lifað lífinu lifandi þótt ég geti ekki staðið á höndum, hoppað heljarstökk né tekið splitt og spígatt.   En ég gat svo sem ekki heldur  framkvæmt þessar athafnir áður en ég fékk í bakið svo... sóvott.....

Hefur þetta kennt mér einhvað?

Ég held það.  Ég til dæmis fer út og geng einn hring hvort sem ég má verða að því eða ekki.  Ég stend upp reglulega ef ég sest niður til að læra, vinna eða eyða stund með þeim sem mér þykir vænt um.

Batnandi ?

Ég held það....


froskur

Ég er að ná mér upp úr sjálfsvorkunarkasti dauðans.

Ég er hætt við að hringja í Bubba til að syngja yfir jarðaför minni og komin með tilvísun á sjúkraþjálfun.  

Ég er líka farin að einblína aftur á drauminn minn um að verða virtur stærðfræðikennari við einhvern af virðingaverðustu skólum landsins.  Þess vegna ligg ég uppi í rúmi og les connecting mathematical ideas.  Bók sem segir mér að það sé ekki vænleg leið til árangurs að kenna börnum reglur og aðferðir agebrunnar.  Til þess að ná árangri þarf að kenna allt heilaklabbið á þann hátt að nemendur uppgvöti sannleikann á nánast sinn eigin hátt.  Til þess þarf ég að vita, hvað leiðir hvað af sér og hvaða spurningar og verkefni leiði til þess að þau uppgvöti hinn eftirsóknaverða sannleika.  Afskaplega áhugavert en kannski svolítið erfitt að tileinka sér.....

Ég er líka að gæla við hugtökin samskipti og virðing og þá í því samhengi að nota þau við umönnun.

Kærasti eða ekki kærasti...   ég kann ágætlega við Keflavík.


krísa

Við það að verða svona slæm í bakinu að ég get ekki:
...mætt sem leiðbeinandi við að leiðbeina í því að hjálpa fólki til að ná tökum á sjálfu sér
og fyrst ég get það ekki þá
...mætt á Minn Vinnustað til að vinna mína vinnu
...bókað þá það sem þarf að bóka í bókhaldsvinnunni minni
...kennt verðandi félagsliðum eða undirbúið mig fyrir kennsluna
...lært heima fyrir mitt nám
...eða hugsað um mitt heimili

hef ég komist að þeirri niðurstöðu að það sé ekki möguleiki að framkvæma allt það sem ég þykist alltaf alla daga ætla að framkvæma.

Ég verð að hætta í skóla ef ég ætla að lifa eitthvað lengur.  Alla vega ef ég ætla að lifa GÓÐU LÍFI.....

Ég hefði viljað segja  að ég yrði að hætta að vinna og snúa mér að alvöru að námi.  En það er bara ekki raunhæfur kostur.


Þið eruð asnar

Hryggsúlan í mér er með uppreisn.....

Hún vælir hátt um betri meðferð.  Hún vælir svo hátt að ég er tilneydd til að eyða meiri tíma í rúminu en mér þykir gott.

Hún vældi meira segja svo hátt í morgun að mér var ekki á nokkurn hátt mögulegt að setjast á klósettið til að pissa.  Og mér var sko mál að pissa.  Ég gat ekki séð nema tvennt í stöðunni.  Annars vegar að leggjast upp í rúm og liggja þar í eigin hlandi þar til heilsan yrði betri eða PISSA STANDANDI.   Ég veit fyrir víst að ég er sátt við að vera kona og kem ekki til með að gera þetta að vana.  

Auðvitað fór ég til læknis.  Læknirinn hló að mér og hélt fyrirlestur um þursabit.  Auk þess gaf hann mér tilvísun á sjúkraþjálfun svona til að koma til móts við mínar óskir og væntingar.   Ég sagði honum ekki frá lækningum sem sagði að hryggjaliðirnir væru að kalka saman né lækninum sem sagði að ég væri hugsanlega með brjósklos.  Ég sagði honum ekkert nema að mér væri illt í bakinu og ég væri ekki mætt á staðinn til að gleypa einhverjar pillur sem hann hugsanlega mælti með, heldur væri ég komin á staðinn til að vita hvað væri að, hvers vegna og hvað væri til ráða. 

Mig langar í frosk..........

WHITEs%20treefrog


sjálfráða

Núna sit ég með fullt vald yfir öllum tólum og tækjum heimilisins.   Ég er með fjórar fjarstýringar og ræð yfir þeim ein og sér og sjálf.

Tækifærin eru óþrjótandi.  Sjónarpsefni, vídeó, dvd eða harði diskurinn....   Það er verst að mig langar meira til að lesa góða bók, teikna, dansa, sofa eða tala við skemmtilegt fólk.

Ætli ég lesi ekki bara eitthvað um aga og bekkjastjórnun þar til eg sofna.....


búðarráp

Ég verð að versla eitthvað.....

Annars fjárfesti ég í tveimur miðum á Laddi 6-tugur með annars manns kredit-korti.  Á sýningu sem verður 11. nóv á þessu herrans ári.  Mig langar líka svo mikið í miða á Janis 27 að ég er að hugsa um að fjárfesta sjálf í tveimur miðum á þá leiksýningu og gefa þá í afmælisgjöf í von um að ég fái að nýta annan miðann.

Það er smá smuga............

....eiginlega stór smuga....


peter early

Ég vatnaði músum í kvöld.....

Margir í kringum mig fóru að háskæla en einn og einn harður nagli táraðist ekki einu sinni.  Ég var svo heppin að fá tækifæri til að sita fyrirlestra í boði AstraZeneca undir formerkjum geðveikisglímunnar við aðstandendur.

Mig langar að lesa bók sem heitir Crazy.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband