alheimsauðæfi

Það er nóg að hugsa um það og þá á maður nóg af peningum.

Ég er að fara og fylla á bensíntankinn, versla í Bónus og kaupa eins og eina eða tvær afmælisgjafir.  Síðan fer ég að vinna þótt ég hafi engan tíma í þesslags vittleysu.  Á vinnutíma mæti ég jafnframt á fyrirlestur tengdum þeirri vinnu sem ég inni af hendi á Mínum Vinnustað

Ég er bara ég....


hæfing

Ég á bráðum eins árs barnabarn.....

Vegna eigin kæruleysis er ég ekki búin að kaupa afmælisgjöf, ég er ekki búin að bjóða fram aðstoð við afmæliskökubakstur og ég er ekki búin að gera ráð fyrir afmælinu í aðgerðalista minnar nánustu framtíðar.

Kæruleysi mitt nær líka svo langt að ég er ekki búin að gera neitt til að bjarga mér um peninga til að lifa af út mánuðinn en í augnablikinu saman standa auraráð mín af u.þ.b. 300 krónum, auk endurvinnslusjóðsins í formi tómra áldósa og plastflaskna og nánast tóms bensíntanks.

Ég var búin að sjá fyrir mér að ef allt um þryti mundi ég gefa upp bankareikningsnúmerið mitt á þessari vefsíðu og með hjartnæmri ræðu biðja þá sem opna hana að leggja inn á reikninginn minn hundrað krónur.  Miðað við hundraðogeitthvaðflettingar á dag, fengi ég þá rúmlega tíu þúsund krónur sem yrðu til þess að ég héldi áfram að blómstra um aldur og ævi.   Síðan náði græðgin yfirhöndina og ég var byrjuð að blogga um tvöhundruðkróna framlag frá hverjum og einum þegar ég uppgvötaði að einstaklingar sem hafa efni á að klippa sig í næsta mánuði, borga sína skatta og skyldur, fjárfesta í nærklæðnaði og kaupa sér nýja skó hljóta að hafa rif undir ráði hverju og geta bjargað sér um aura án betls.

Allt verður og fer sem fer.


strák-tittir

Strákarnir í Vinnunni Minni er alveg hættir að veita mér eftirtekt.

Núna þegar ég ber mig aumlega yfir einhverju eins og loðnum leggjum, biluðum bílum eða fáum aurum í veskinu, snúa þessir drengir bara upp á sig, horfa á mig stóreygðir og segja:   ,,hvað segir Keflvíkingurinn við því? "

Einu skiptin sem þeir nenna að eyða orðum í mig er þegar ÉG á að gera eitthvað fyrir þá.  Svo segja þeir bara þegar ég kvarta:  ,,varstu ekki að biðja um athygli, kona? "

Ég er sko orðin hundleið á þessum strákum.

Ef þeir ættu ekki svona flottar byssur, rennilega bíla, sterklega skrokka og góðan húmor væri ég löngu búin að hætta að þekkja þá.

*unagga*


endamörk

Ég sit og strýk bókunum mínum.....  Þar sem ég sit og strýk bókunum mínum hugsa ég með ánægju til þess dags þegar ég hef tíma til að taka upp eins og eina bók og lesa hana.

Önnin er rétt að byrja og ég er strax komin á fall í skilum. 

Á Minn Vinnustað mæti ég upp á hvern einasta dag.  Ég mæti eingöngu vegna skyldurækni og vegna þess að ég er svo hrædd um að það gerist eitthvað spennandi ef ég er ekki á staðnum.   Og fyrst ég er hvort eð er mætt á staðinn leyfi ég einum nema að hanga aftan á rassinum á mér hvert sem ég fer.
Á Bókhaldsvinnustaðinn mæti ég líka nánast upp á hvern einasta dag.  Ég mæti þar vegna þess að ég á eftir að skila af mér einhverjum pappírum og vegna þess að það er alveg sama hvað ég mæti þar oft  ég er alltaf jafn tóm í kollinum um hvað ég sé eiginlega að reyna að gera með þessa tilteknu pappíra.

Næsti fimm kennslustunda fyrirlestur í Kennslu-Starfinu-Mínu verður um Largatil, leponex, schizophrenia, manic-depressive og annað sem viðkemur geðsjúkdómum.  Vonandi man ég eitthvað af allri þessari visku þegar fyrsta kennslustundin rennur upp á morgun.

Það er fundur á Menntavísindasviði HÍ á morgun með heimaskólanum mínum sem ég verð að mæta á.  Það er verst að á sama tíma verð ég einnig að vera á tveimur öðrum og ólíkum stöðum. 

Ég er að verða sérfræðingur í að koma mér í verkefni sem ég ræð ekki við.....


þú ert'ann

Ég var víst klukkuð....

Fjögur störf sem ég hef unnið um ævina:
Hausasnyrtir í Sláturhúsi Hornfirðinga
Öryggisvörður hjá Öryggismiðstöðinni
Sjúkraliði á Kleppi
Leiðbeinandi í Sjálfsvarnaleiðum

Fjórar bíómyndir sem ég held upp á:
SHREK
Íris
Rauðhetta
Titanic

Fjórir staðir sem ég hef búið á:
Höfn í Hornafirði
Kópavogur
Reykjavík
Hafnafjörður

Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar:
House
Lost
Desperet Housewifes
Grey's Anatomy

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum:
Þýskaland
Kaupmannahöfn
Hálendi Íslands, uppsveitir, útkjálkar og annes
London

Fjórar síður sem ég skoða daglega fyrir utan blogg:
hi.is
postcrossing.com
mbl.is
wulffmorgenthaler.com

Fernt sem ég held upp á matarkyns:
lifur
grænmetissúpur
súkkulaðikaka heimilisins
ís

Fjórar bækur sem ég hef lesið oft:
Brennu-Njáls saga
Greifinn af Monte Christo
...Terry Pratchett
...Stefan King

Fjórir óskastaðir akkúrat núna:
Keflavík
Mexíkó
rúmið mitt
Þakgil

Fjórir bloggarar sem ég klukka:
Klukk... klukk... klukk... klukk...   Þeir taka klukkið til sín sem vilja.

iq

Gáfnafar mitt nær ekki yfir að hafa fatt í eðli og náttúru bókhaldsafstemminga...

Ég sit hér á vinnustað með hendur í kjöltu og háskælandi.  Ég veit ekki hvort það sé vegna þess: að ég sé komin á breytingarskeiðið, að kaffivélin fer ekki í gang, að mér er kalt eða vegna þess að mig langar að vera lengur í Keflavík.

Ég bara skil ekkert í hlutunum lengur.....


skil

Verkefnin hlaðast upp og ég er bara að veltast í barnaafmæli sem mér svo sem kemur ekkert við....

Það er sama leiðindaveðrið í Keflavík sem annars staðar.

Í fyrramálið verð ég stödd í litlu fyrirtæki í Kópavogi að hamast við að afstemma tölur.  Þær tölur verð ég við að afstemma þar til dagur rennur.  Þá fer ég heim að sofa.  Síðan mun ég mæta á minn vinnustað og vinna mína vinnu og eftir það gera mig klára til að kenna á miðvikudag.

Norðlenska hjúkkan röflar og heldur því fram að Skreppihjúkkan komi til með að gera eitthvað í undirbúningi fyrir Vísindaferðina.  Ég veit ekki meir.   Eina sem ég veit er að ég og Art og FrekaSjúkraliðaKonan og Toppmaðurinn og VísaStrákurinn og GunniGötustrákur og Krílið og Stýran sjálf ætlum að leggja land undir fót og skemmta okkur á Akureyri eina helgi.   Á þeim mæta stað munum við kíkja á Geðdeild, djamm og allt sem fróðlegt er að sjá.  Auðvitað er margt sem við komum til með að fara á mis við að sjá en það er allt í lagi, því við munum fara aftur og aftur og aftur á þennan stað,  bara til að hitta NorðlenskuHjúkkuna......

Debet og kredit.  eittþúsund og eitthvað á móti tvöþúsund og tíu.....

Er ég að nenn'essu?


skírn

Ég átti notarlega stund áðan yfir humarpotti, með fangið fullt af smábörnum og umvafin af þessu yndislega fólki sem ég er svo heppin að geta kallað mitt.

Barninu var gefið nafnið Ragnheiður Ásta......

Í veislunni var ég minnt á barnabarnið sem ég átti en á ekki lengur.  Krúttlegur strákpjakkur sem ég af fúsum og frjálsum vilja var búin að gera að mínum og elska í eitthvað um tvö ár en var svo svipt með einu dna-prófi.

Ég hef eiginlega aldrei sætt mig við að þurfa að sjá á eftir honum.  Því það var ekki bara fullvissan um að hann væri ekki minn sem fékk mig til að sleppa af honum takinu heldur allt það sem olli því að ég þurfti að horfast í augu við þær staðreyndir að hann væri ekki minn.

Núna hef ég smellt mynd af Hauki upp á vegg, kveikt á kertum undir myndina og rist undarleg tákn allt um kring....  Síðan mun ég söngla undarlegar þulur meðan ég brugga seyð sem ég vona að komi til með að gefa mér sálarfrið.

Ég er að fara að kenna tök á morgun.  Ég verð líka að skreppa í grunnskóla til að fylgjast með því hvernig stærðfræðitími á unglingastigi fer fram.   Eftir það skelli ég mér til Keflavíkur þar sem ég mun gera það sem ég get til að afstemma eitt stykki bókhald fyrir eitt fyrirtæki.


afstemmingar

Morgunvakt, kennsla og bókhald og eftir það er engin tími til að læra nema stela af nætursvefninum. 

....eftir helgi skánar þetta og fer svo hægt batnandi fram eftir hausti þar til enginn tími verður til að vinna fyrir lærdómnum...

bara eilíft ósamræmi

-heima hjá mér er allt í drasli-


næringarpása

Í gær var stefnan sett á að ná að gera þrennt, þ.e.a.s. að mæta á Minn Vinnustað, koma við í Kolaportinu til að fjárfesta í gleraugum og heimsækja LaukÆttarMinnar á gjörgæsludeild Lsh.  Ég segi stolt frá því að ég náði þeim markmiðum mínum.  Ég segi stolt frá því vegna þess að það er ekki oft sem ég næ að gera allt það sem ég hef sett mér að framkvæma hvern dag.

Þess vegna hef ég ákveðið að setja mér ekki fleirri markmið þessa viku en að gera mitt besta....    og þykir mér samt nóg um.

Rottan ældi í sófann minn...  Grunnskólaneminn ætlar að sofa hjá vinkonu sinni...  og ég er farin að vinna meira.

Einhver sagði að það tæki sjö ár að kynnast öðrum einstaklingi VEL, ég er mikið að velta því fyrir mér hvað það tekur langan tíma að þekkja sjálfan sig. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband