einbeitning

Milli þess sem ég les, hlusta á fyrirlestra og skrifa niður glósur labba ég um þessa hundraðogeitthvaðfermetra og velti fyrir mér fólkinu sem gerir þetta heimili að heimili. 

Ég get ekki ímyndan mér hvað fékk þennann mann til að segja já við mig þegar ég spurði hann hvort ég mætti flytja inn á heimili hans í viku. 

Ég velti því ennfremur fyrir mér hvað strákunum hans finnst um það að ég breiði úr mér við eldhúsborðið með blöð, bækur, tölvuna og skriffæri.

En rosalega er ég fegin........


óbyggðir

Mér líður of vel til að hafa áhyggjur á lærdómi....

Ég var að koma úr jeppaferðinni.  Eftir að hafa sofið í skálum og hlustað á hrotur samferðamanna minna, klöngrsast ofan í helli í iðrum jarðar, gengið á hól til að skoða stórkostlega fossa, borðað nesti um hádegisbil úti í móa með rauðvín í glasi, skemmt mér yfir kvöldvöku barnanna sem voru með í ferðinni, hossast um í jeppa á troðningum í miðju hrauni, skoðað kaffihús sem ég vissi ekki að væru til, haft áhyggjur yfir eyðileggingu alls mosa landsins og dárast í góðra vina hópi er ég tilbúin að leggjast í einangrun yfir hverju sem er.

Á morgun mun ég koma mér vel fyrir í Keflavík.  Þaðan mun ég ekki koma fyrr en ég veit eitthvað meira um það sem ég verð prófuð í í næstu viku.

Vinsamlegast hringið ekki í mig eða sendið mér sms fyrr en klukkan er orðin 18:00 alla næstu daga.  Ekki segja mér frá einhverju skemmtilegu, ekki biðja mig um að gera eitthvað, ekki bjóða mér neitt, ekki láta mig heyra í ykkur nema ill nauðsin liggi fyrir og þá helst svo ill að ekkert annað er í stöðunni en að hafa mig með í ráðum.

Ég verð að læra fyrir próf.


einangrun

Ég leita að aðstöðu fyrir mig alla næstu viku.  Þessi aðstaða verður að vera nettengd, án dýra og manna frá morgni til kvölds.  Það verður að vera mannsæmandi salernisaðstaða, kaffivél og aðstaða til að hrófla í sig næringu með reglulegu millibili....

Og þetta verður að vera frítt......

Einhver ?


mitt val

Guð gefi mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt.  Kjark til að breyta því sem ég get breytt og vit til að greina þar á milli.

Ég fékk úthlutaða þriggja herbergja 100 m2  íbúð í stúdentaíbúðunum hjá Keili sem ég sótti um í einhverju stundarbrjálæði fyrir viku síðan.  Leiguverð nettar 60.000 krónur með hita og rafmagni og nettengingu.   Í gær sat ég og velti fyrir mér æðruleysinu og kjarkinum og komst að því að það er við hæfi að sætta sig í augnablikinu við 100.000 króna leigu, 7.000 króna hita og rafmagn og nettenginu upp á 5.000 krónur og brosa bara breytt.....
Grunnskólaneminn neitar líka eindregið að flytja svona langt í burtu frá skólanum sínum.   Þessi netti sparnaður myndi því hvort eð er eyðast upp við að transporta fram og til baka með ósáttann Grunnskólanema.

Auk þess get ég ekki hugsað mér að sjá af garðinum, nágrönnunum og staðsetningu minni innan Stór Reykjavíkursvæðisins.

Svo að ég hringdi  í íbúðareigendurnar og sagði þeim að íbúðin þeirra væri að rotna í sundur.  Síðan spurði ég þau hvort þau ætluðu að gera eitthvað í því, hvort þau ætluðu að leigja íbúðina áfram og hvort þau ætluðu þá að leigja hana til mín.

Ég á von á að þau láti sjá sig eftir 20.ágúst og ég vona eindregið að þau geri eitthvað meira en að hækka bara leiguna..


sjálfselska

Ég tel mig vera búna að segja mínum vini til syndanna.  

Með undanförnum bloggfærslum sagði ég honum það sem ég vildi sagt hafa og get því gengið um sæl og sátt við sjálfa mig um alla framtíð.

.......En ég elsk'ann alkann árans kjánann jafnvel þó að hann sé eins og hann er........

Tennurnar detta úr ein og ein....  svo hratt að ég er tilneydd til að mæta til tannlæknis í dag.  Sem er alveg skelfilegt því þá fara, með það sama, allir peningarnir mínir sem áttu að fara í jeppaferð um hálendið um næstu helgi.

Núna sit ég með krosslagða fingur og vona að styrkurinn minn frá stéttarfélaginu mínu verði lagður inn fyrir helgi annars........   bara sorg og sút.

GunniGötustrákur er hetja í mínum huga.  Svo mikil hetja að núna reyni ég að vera ekki minni kona en hann.  Í gær sat hann úti í garðinum mínum að skrifa á póstkort með mér þegar einum Geitungi dettur til hugar að athuga hvað hann hafi upp á að bjóða.  Í þrjár ógnþrungnar mínútur hamaðist geitungurinn við að reyna að komast inn um öll göt á andliti stráksins en strákurinn sat bara í makindum sínum eins og hann hefði átt í nánu ástarsambandi við Mæju bíflugu í margar aldir.....    Ég vil hafa svona stáltaugar.

Ég vil líka sjá börnin mín oftar...  hafa barnabörnin nær mér og nota tímann betur í lærdóm.

Keflavík rokkar.


alkinn

Ég veit að enginn kemur mér í skítinn...  ég kemst þangað bara á eigin verkum.

Ég veit að það er ekki hægt að breyta öðrum.....hver og einn getur bara breytt sjálfum sér.

og ég veit að við höfum ALLTAF val.

Mér finnst það bara svo mikið ábyrgðarleysi ef ég ætla ekki á einhvern hátt að segja þessum vini mínum að hann sé ekki alveg að gera hluti sem þeir sem næst honum standa geta verið sáttir við.

Ég ætla ekki að leiða honum fyrir sjónir hvað hann er að gera sjálfum sér... hann verður að gera það sjálfur.
Ég ætla ekki að tuða og röfla í honum um hvað hann sé komin nálægt botninum... hann verður að fatta það sjálfur.
Ég ætla ekki að koma honum í skilning um að hann lifi í blekkingu ef hann heldur að hann hafi tökin ennþá...  hann verður að átta sig á því sjálfur.
Ég ætla ekki að gera eitt eða neitt til að neyða hann til að horfast í augu við alkahólismann í sjálfum sé...  hann þekkir hann sjálfur.

Hann hefur jú alltaf val.   Hann getur bjargað sér og hann getur  sleikt botninn um aldur og ævi.  

Ég ætla bara að SEGJA honum að mér þykir vænt um hann.  Hann hefur allt til að bera til að vera eftirlæti heimsins og það er allveg öruggt að hann getur allt sem hann vill. 
.....En þú ert búin að sýna það að þú hefur ENGA stjórn á aðstæðum lengur.  

GERÐU EITTHVAÐ Í ÞVÍ... 


akahólismi

Ég á vin og það er ekki vinur innan gæsalappa (sem sagt ekki Keflvíkingurinn).

Mig langar svo mikið til að segja við þennan tiltekna vin:  Þú átt bágt, leitaðu þér hjálpar.  Gangtu í AA, farðu í meðferð á Vogi eða gerðu eitthvað róttækt til að koma þér upp úr þessum ræfildóm sem þú ert að drekkja þér í...........

En hvernig ber ég mig að til að tala um svona leiðindamál við einstakling sem mér þykir verulega vænt um.....

xx   xx
xx  x x  xx
xx   x   xx
xx     xx
xx   xx
xx xx
xxx
x

Í viðleitni minni til að hafa vit fyrir þér segi ég:

.......Hafðu vit á að lesa þessa bloggfærslu mína og taktu hana til þín Alkinn þinn og gerðu þér grein fyrir því að þú hefur ENGA stjórn á aðstæðum lengur.


Ég er með netta slæmsku

Ég tók eina af lélegu ákvörðunum lífs míns í dag.... 

Auðvitað er hún frábær, hentar mér vel og styður í alla staði vel við líf mitt sem slíkt.  Ég stóð bara svo illa að henni.  Framkvæmdi hana eiginlega á ófyrirgefanlegan hátt. Eiginlega gerði ég það sem ég kem til með að skammast mín fyrir um aldur og ævi.  

Ég bara MÆTTI ekki.

Ég tel sjálfri mér í trú um að ég hafi verið í kvíðakasti.  Ekki þorað að mæta.  Ég tel líka sjálfri mér í trú um að þetta sé í fullkomlegu samræmi við það sem gengið hefur á undanfarið.  Ég svo hamast við að telja sjálfri mér í trú um eitt og annað í þeim tilgangi að hvítþvo mig sjálfa fyrir hegðun mína.  Það er samt ekki alveg að ganga.  Ég er enn jafn saurug eftir þessa framkvæmd.  Ég er enn með samviskupúkan á herðunum.  Og hann potar fast.

Ég bara þoli ekki þegar ég geri svona hluti.

Ekki það að ég geri fastlega ráð fyrir því að þótt ég hefði mætt hefi ekkert beðið mín annað en að fara beint heim aftur.   Það hefur alla vega ekki neinn hringt ennþá til að spyrja afhverju ég sé ekki komin á staðinn.  Til að segja mér að hunskast til að mæta og það strax.

aukavakt

Erfið en skemmtileg helgi....

Ég er búin að vera viðstödd dauðsfall og fá að taka þátt í að ganga frá því nái.  Og það sko gaf mér alveg nýja sýn á frágangi.   Ég er búin að endurnýja kynni mín af mælitækjum sjúkraliðans, læknisfræðilegum heitum og skammstöfunum og samskiptum við brotna aðstandendur.

Ég væri til í að vinna á þessari deild...

Síðasti dagur í afleysingum við að ræsta lögfræðistofu er í dag og ég nenni ekki að koma mér að verki.  Ég fór snemma á fætur eftir næturvaktina til að ljúka því af fyrir kvöldvakt á Mínum Vinnustað en letin leggst bara svo þungt á mig.

Er'etta hægt...

Mig langar til að prjóna mér nýja lopapeysu.


þögn

FrekaSjúkraliðaKonan hringdi í mig í kvöld til að fá hjá mér símanúmer.  Síðan fór hún fram á það að ég segði eitthvað um hana á síðunni minni. 

En þar sem það yrði bara tómt bull eða uppljóstrun á einhverju sem kyrrt má liggja sleppi ég því..

Í dag fékk ég að handleika kreditkort Vísa-stráksins eins og ég ætti það.  Auðvitað fór ég beint á netið og eyddi einhverjum peningum fyrir hann.  Það er verst að ég veit ekki hvort ég straujaði út 30, 40 eða 50 þúsund.  Það hefði verið skemmtilegra fyrir hann að vita það...

Þessi helgi kemur til með að fara í lítið annað en vinnu...  hinsegin dagar koma til með að fara alveg fram hjá mér auk þess sem lítið fer fyrir uppeldi, lærdóm og skemmtanahaldi. 

Systir mín er í Reykjavík...  Keflavík kallar...  Ég verð að fara að ákveða matseðil jeppafararinnar...  og mig langar í lítið kolagrill.

Hér má heyra saumnál detta...

GunniGötustrákur

til hamingju með daginn


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband