27.2.2010 | 21:17
Laugardagskvöld
Og ég horfi gegnum sjónvarpið á Fallegt fólk á sviði í Háskólabíó að skemmta sér yfir einhverri Eddu....
Framhaldsskólaneminn er á Hornafirði á balli svo að ég á heimili mitt ein og sér og sjálf. Þá má ég stilla á hvaða sjónvarpsstöð sem er, hafa stillt eins hátt og ég vil og sita hvar sem mig langar....
Ég á að vera að útbúa fyrirlestur og glærur til að styðja hann en þess í stað flækist ég um netheima, horfi á sjónvarp og hugsa. Að hugsa er oft stórhættulegt því mér dettur alltaf svo margt frábært í hug þegar ég stunda þá iðju. Til að mynda er ég núna búin að ákveða að fara til Mexíkó að heimsækja frænku mína sem ég talaði við í dag. Ég er líka búin að ákveða að ég á kærasta. Jamm ég er að segja ykkur það, ég á kærasta en þar sem hann veit ekkert um það er ég ekki í sambandi....
Í gær fletti ég í gegnum fortíðina. Ég stóð í miðri kassahrúgu sem innihélt hluti sem tilheyrðu fortíð minni og hafa legið í gleymskunardái í einhver fimm ár. Núna hugsar einhver: ..fimm ár án þess að þarfnast þess, þá má henda því.. Ég er ekki sammála. Þarna var fullt af vírum og perlum og böndum fyrir skartgripagerð. Þarna var fullt af garni svo sem sokkagarni, loðnu garni, bómullargarni og það garni í öllum regnbogans litum. Þarna var fullt af bókum, skólabókum og það sem meira var Stærðfræðibókum sem ég hélt að væru ekki til lengur. Þarna var líka fullt af leikföngum, barnafötum, vínilplötum og trékistlum. Mér tókst samt að henda eins og einum fullum ruslapoka og er stolt af......
Í kvöld gæti ég verið á Thorvaldsen að æfa þessi fáu spor sem ég kann nú þegar í Salsadansi en ég nenni því ekki...
Í kvöld gæti ég verið úti á göngu í snjónum en ég nenni því ekki...
Í kvöld gæti ég verið búin að troða mér í heimsókn hjá einhverju skemmtilegu fólki en ég nenni því ekki...
Í kvöld gæti ég boðið fólki í heimsókn til mín en ég nenni því ekki...
Í kvöld gæti ég verið húsleg og gert eitthvað af þeim heimilisverkum sem nauðsinleg eru til að hægt sé að kalla heimili heimili en ég nenni því ekki...
Ég ER löt...
Athugasemdir
Það er notalegt og stundum bráðnauðsynlegt að eiga sinn tíma sjálf, vera maður sjálfur og algjörlega eiga kvöldið.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.2.2010 kl. 12:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.