efst

Við sjónarhringinn bátur bíður
við bakkann bundinn og tíminn líður.
Kolsvört dögun og eitt orð
ertu tilbúinn að fara um borð?

Við endamörkin máninn gulur
í myrkri skrifar fölur, dulur.
Spor þín telur og eitt orð
ertu tilbúinn að fara um borð?

Ég fór með lyftunni upp á tuttugustu hæð bara til að fara þangað upp og vita hvernig það er að fara með þeirri lyftu sem fer lengst upp í himininn á þessu heimssvæði....

Ég labbaði upp allar þessar sömu hæðir stuttu áður og niður aftir.   En það gerði ég bara til að verða ekki síðust upp á Esjuna í vor með sprungna kúpu, samfallin lungu og brostið hjarta....

Ég á einn miða á heimildamynd Friðriks Þórs á sunnudaginn klukkan hálf sex.....


lífið

Í regninu elskendur finnurðu falda
fallandi regnið mun yfir þau tjalda.
Hjörtun þau titra, hjörtun þau loga
hjörtun sér fórna undir silfruðum boga.

Við þig ég tala meðan tunglið syndir
tekur þín augu sýnir þér myndir.
Lífinu myndi ég vissulega voga
í von um koss undir silfruðum boga
.

Jólin hverfa smátt og smátt niður í kassa og það án nokkurs söknuðar af minni hálfu.   Í rúminu mínu liggur bók eftir Lizu Marklund,  Það er staður í helvíti fyrir konur sem hjálpa ekki hvor annarri.  Bók sem náði ekki að fanga huga minn við fyrstu kynni en nærir núna andúð mína á ójafrétti heimsins konum til handa....

Líf mitt krefst skipulagningar.  Mímir símenntun hringdi og tjáði mér að ég er að fara að kenna alla fimmtudaga fram á vor.  Auk þess tjáði hún mér að ég er líka að fara að kenna 5x20 tíma námskeið.  Dóttir mín VerðandiTrúabragðafræðingur lofaði að ég mætti hafa barnabarnið alein sér og sjálf alla fimmtudagsmorgna.  Svo er ég skráð í þrjú fög við Grunnskólakennaranám mitt og það skal standa.  Eitt fagið krefst vettvangsnáms þ.e.a.s. kennslu við grunnskóla í hálfan mánuð í mars-apríl.  Annað fag krefst viðveru fimm laugardaga við að leika sér.  Og það þriðja og síðasta krefst trúlega einhvers líka... Bókhaldsstarf mitt krefst 30 tíma viðveru á mánuði.  Minn Vinnustaður krefst líka viðveru á vinnustað, þátttöku í samverustundum starfsfólks og heillrar viku viðveru við leiðbeiningu í að taka á spennuaugnablikum innan Geðsviðs í byrjun mars.  Auk þess hef ég heitið sjálfri mér að hreyfing er í fyrsta sæti í viðleittni minni til að lifa lífinu.  

En svo er allt hitt líka.  Stefnumót við Tenór, föndurdagar með vinkonum, safnaferðir, bíósýningar, gæðastundir með Grunnskólanema,  matarboð, tónleikar, kaffiboð, hittingur, letistundir, heimilishald.....  o.s.fr.


verk

Ég er náttúrufræðilegt undur.....

Það er vegna þess hvað ég er fljót að gleyma.   Ég er ekki fyrr búin að snúa mér við en ég er búin að gleyma.   Ætla til dæmis að hreyfa mig meira á þessu ári en því síðasta en er varla fyrr búin að hreyfa mig þegar ég er búin að hringa mig niður í einhvern stól til að lesa, skoða vefsíður eða láta mig dreyma.     Ætla líka að borða minna,  það er í raun það eina sem ég ætla að gera minna af á þessu ári en síðasta.  En ég er ekki fyrr búin að hugsa að ég ætli að borða minna þegar ég er búin að stinga einhverjum óþverra upp í munnin á mér.  Þetta er svo yfirþyrmandi að tóma ruslatunnan síðan í morgun er orðin full.

Er ekki allt í lagi með mig.....  ég er búin að skrá mig í þrjú fög á vorönn.

p.s. ég er með harðsperrur í rasskinnunum..


húrra

Ég gekk kringum vesturhluta Kóparvogsbæjar eða vesturbæinn eins og hann leggur sig áðan.  Sit svo núna hálfnakin í stofunni minni í sjálfsánægjukasti yfir eigin afreki.  Að ganga þennan spöl er lítið afrek út af fyrir sig en að ná eigin rassgati upp úr stól í dag er það stæðsta sem ég hef gert síðan fríið mitt gekk í garð.

Bara húrra fyrir mér...........

Ég er mikið að velta fyrir mér áramótaheitinu enn þá.  Mér finnst litlu máli skipta hvort ég geri það á slaginu eina mínútu yfir tólf fyrsta dag ársins eða í kvöld, eða á morgun eða þar næsta dag.   Svo lengi sem ég strengi eitthvað heit sem ég vil af heilum hug halda skiptir tímasetningin ekki öllu.

Ég vil hitta börnin mín, ættingja og vini oftar en hingað til....
Ég vil teikna meira, prjóna meira og föndra meira en hingað til....
Ég vil læra meira og jafnara, skila verkefnum og standa mig betur í námi en hingað til...
Ég vil halda heimilinu hreinna og flottara en hingað til....
Ég vil hugsa betur um hundinn en hingað til....
Ég vil lesa meira, hugsa meira og skrifa meira en hingað til....
Ég vil hreyfa mig meira og lifa hollara lífi en hingað til.....
Ég vil ganga á Heklu, Hvannadalshnjúk og Laugaveginn.....

....en fyrst og fremst vil ég læra að virða sjálfa mig.


leti

Ég gekk á jafnsléttu í dag....
Ég skrifaði rúman tug af póstkortum sem dreifast um allan heim...
Ég skoðaði skólamál mín...
Ég sótti Grunnskólanemann út í Ernir air skrifstofu og heimsótti vinkonu mína í Vesturbænum....

Síðan gerði ég ekki meira þann daginn

móðir barnabarnsins míns

Ég ætlaði að vera stóryrð um hegðun fyrrverandi tengdadóttur minnar á gamlaársdag... þar sem hún sagði um að ég mætti taka barnabarnið með mér til Akureyrar en hætti svo við og gat ekki hætt við auglitis til auglitis heldur gróf höfuðið niður í sandinn og ansaði ekki símum, hurðabanki né öðrum viðurkenndum leiðum til að hafa samband..

Síðan á gamlaársdag hefur mikið vatn runnið til sjávar og ég get ekki með nokkru móti verið þessari stúlku reið..    Hvort sem það er vegna þess að hún er frænka mín, vegna heilkenna minna eða vegna þess að ég veit betur hef ég ekki hugmynd um.   Ég veit bara að ég vorkenni þessari stúlku fyrir að geta ekki staðið með eigin ákvörðunum...

Sonur minn heldur fætinum enn sem komið er....   ég er á leið í afmæli eins árs stúlku.... og matarboði vinkvennahópsins er frestað eina ferðina enn...


fóturinn af...

Slasaði sonurinn var rekin upp á spítala harðri hendi af móður sinni sem sagði að nú væri farið að grafa í sárinu og ef hann vildi halda fætinum yrði hann að gera eitthvað í því....

Núna liggur hann þar í góðu yfirlæti með sýklalyf í æð og vonandi mjúkhenta hjúkku að binda um sárið....

Strákurinn datt af mótorhjóli og fékk högg á rófubeinið sem veldur því að hann getur ekki setið og finnur MIKIÐ til við ýmsar athafnir.   En það sem meira er er að hann fékk sár á fótlegg.  Sykursýki tegund 1 og fótasár eru eitthvað sem heilbrigðisfræðin vil ekki sjá á einum og sama einstaklingnum svo nú er hann í vondum málum.

Megi allar góðar vættir gefa það að honum grói.....  og grói strax.

2009

Ég lagði af stað til Akureyrar klukkan 09:00 í (fyrra)gærmorgun...  ég var samt ekki komin á Akureyri fyrr en um klukkan 20:00 í (fyrra)gærkvöldi

og það var ekki fyrir leti....

Þakka ykkur fyrir samfylgdina á liðnu ári.   Vonandi eigum við eftir að eiga eitthvað saman að sælda á þessu ári líka...


fráleggja

Sumir dagar eru betri en aðrir dagar.....

Það gerir heimsókn Tenórsins hingað í dag,  skartgripaskoðunarferð okkar hafrúnar á Laugaveginum seinni part dagsins,  hnetupottrétturinn á Maður Lifandi um kvöldmatarleitið, súkkulaðibollinn á heimili Tölvufræðingsins í kvöld og afköst mín við Bókhaldsvinnuna mína núna undir miðnætti.

Á morgun verð ég á Akureyri


áramótaheitið

Ég er komin í sjö daga frí frá Mínum Vinnustað...  Því fríi verður eitt í vinnu, undirbúning fyrir næstu skólaönn og eitthvað sem er svo gjörsamlega tilgangslaust að ég kem til með að skammast mín við tilhugsunina áralangt...

Eins og önnur undanfarin ár hef ég margs að minnast og get horft yfir líðandi ár með fullvissu um að ég hafi gert mitt besta til að lifa því lífi sem ég á á því ári...

En um þessi áramót vil ég strengja heit um eitthvað sem þokar mér áfram í lífinu.  Ég er samt ekki að nenna að hafa það of flókið eða fyrirhafnarmikið.  Nenni til að mynda ekki að taka mig á í ofátinu, skólaletinni eða að leggja meiri rækt við Vinnurnar mínar...

Sé í hillingum áskorunina í að bragða ekki áfengi í heilt ár.  Vil líka ná því að ,,virða sjálfa mig"  við hvert tækifæri.   Og þætti ekki verra að ná eins og einni dellu til að fylla upp í líf mitt.

Áttið ykkur á því að Lífið sjálft er bara ekki sjálfgefið...


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband