hvatvísi

Ritari tannlæknis míns hló að mér í morgun....  reyndar sagði hún fyrst ,,nei"  þegar ég sagði henni að ég væri haldin kvíðaröskun og væri sko ekki til í að hoppa í stól hjá bráðókunnugum tannlækni og hleypa honum upp í munninn á mér.    Það var ekki fyrr en ég sagði henni að þetta væri sko ekkert grín heldur bláavara sem hún hló.  Þá var ég líka búin að segja henni með mörgum og fögrum orðum að hún gæti ekki sagt: ,,nei" þegar ég segði henni hvernig mér liði og það breytti sko engu um mína líðan hvað henni fyndist um það.

En hún samþykkti eftir allan hláturinn að ég mætti mæta fyrst og skoða þennan tannlækni áður en ég mætti í hinn fyrirhugaða tíma fyrir uppsetningu á postulínstönn upp á áttatíuogáttaþúsundkall.

Ég er sko ekki að fyrirgefa tannlækni mínum að fara fyrr í fæðingarorlof en fyrirhugað var...  ég skil ekki einu sinni hvað hún er að meina með því að vera að vesenast í barneignum á þessum síðustu og vestu tímum og skilja mig eftir svona eina og umkomulausa.

Bara bull.....

Ég er að hlusta á jólageisladisk á meðan ég les um The van Hiele Theory of Geometric Thought.  Hugsanir mínar reika til og frá á meðan ég les.  Og alveg sama hvað ég reyni að fanga þær að þessu eina viðfangsefni þá verð ég að sætta mig við þetta flakk þeirra.  Ég er búin að leiða hugann að:
    -löngun minni til að fara í Ikea í dag til að kaupa mér snagaprik til að festa á vegginn í svefnherberginu mínu.
    -fyrirhugaðri jólaskreytingarstund okkar mæðgna í kvöld
    -verslunarferð í Álafoss til að fjárfesta í lopa í lopapeysu
    -hvað ég á að kenna á miðvikudaginn
    -jólagjafakaupum
    -hvar ég á að kaupa mér alvöru svefnpoka
    -hvort ég eigi að snúa upp á hendina á Grunnskólanemanum þar til hún samþkkir að vera á Akureyri um áraskiptin
    -hvernig það verði að vera á Mínum Vinnustað á sjálft aðfangadagskvöld
    -hvað mig langar mikið að eyða tíma í að gera EKKERT.....

Próf...  verkefnaskil.... lestur.... löngun.... vsk-skil...  bakstur... þrif... jól.... vinna...

Ég er sko farin í IKEA núna.


aðventan

Ég er að fara að mæta í vinnuna til að baka piparkökur.........

Þegar ég kem heim er ég að hugsa um að setja upp jólastjörnur í stofugluggann og jóladúk á stofuborðið.  Taka niður jólaskrautkassana úr hillunum í þvottahúsinu og jafnvel skutla í eins og eina súkkulaðibita uppskrift og baka hana.

Síðan ætla ég að setjast niður og læra eitthvað af viti....


sjálfsvirðing

Einhvern tíma sagði einhver við mig ,,Þú hefur enga sjálfsvirðingu" um leið og viðkomandi settist upp í bílinn minn.  Síðan þá hef ég mikið velt því fyrir mér hvar og hvernig sjálfsvirðing mín fær vaxið og gróið.  Þar sem ég tengi þetta við eitthvað meira og stærra en því hvort ég keyri um á skoda eða bens hef ég markvisst reynt að breyta viðhorfi mín til bílsins.  Ég hef reynt að sjá bílinn minn fyrir mér með bleikum púðum í aftursætinu, tuskudúkkum í afturglugganum og apaskottum hangandi neðan úr aftursýnisspeglinum í stað þess að vera framlenging á geymslu, útvíkkun á ruslatunnu eða staðgengli útifataskáps....

Þar sem það er ekki farið að bera árangur ætla ég að reyna að sjá'ann fyrir mér með bláum fylgihlutum um leið og ég tæmi aftursætið, skottið og allan gólfflöt grindarinnar.

Ég dái Diddú og ég tárast yfir Ave Maria.  Ég fæ líka léttan sæluhroll þegar Domus Vox syngur Borgin helga - Jerúsalem auk þess sem ég hef ekki heyrt það flottara flutt Heims um ból.  Ef ég hefði ekki verið að vinna þar sem ég var að vinna í gær hefði ég ekki verið með tárvotar kinnar alla tónleikana því ég er sko harðjaxl.  Mér varð bara svo mikið hugsað um hvað það væri manni hollt að fá að hlusta á fallega tónlist í kirkju án þess að vera dauður.  Og áttaði mig þá á því að ég hefði horfst í augu við einn sem hefur bara ekki kost á því nema einhver honum nátengdur fái hugljómun í dag.

Mig vantar nauðsynleg sjálfsvirðingu núna strax....


veikindi

Ég hef barist við NORO og hermannaveikina í allt kvöld....  Vopnin sem ég valdi mér í þessari baráttu fólust í gulri hulinsskykkju af flottustu gerð, tækniþróuðum fingravörnum, bannvænum gelvökva og háþróuðum flutningstækjum þar sem þurfti að skrúfa frá bláu og rauðu eftir galdraformúlu.  Eftir langa og stranga orustu hafði ég unnið nógu mikið af prikum til að komast af vígvellinum en svo verður því miður ekki um alla sem dvelja þarna á staðnum og ráða ekki við að vinna sér inn prik.

Grunnskólaneminn hélt fyrir mér vöku í alla nótt,  Upp úr fjögur var mér orðið um megn að hlusta á hana kúgast og æla vegna hóstans sem ásótti hana og fór því fram úr og gaf henni mjólkurglas.  Eftir það var samviskupúkinn minn sáttur og ég sofnaði vært.  Krakka greyið sofnaði aftur á móti ekkert það sem eftir lifði nætur og eyddi nóttinni við að horfa á hundleiðinlegt sjónvarpsefni.

Ég finn til í sálinni.  Ég velti fyrir mér þeim möguleika að eitthvað þjái mig og ef ég geri ekki eitthvað róttækt komi það til með að skemma möguleika mína á góðum elliárum.  Þess vegna er ég að áforma betri daga með sól í heiði og kannski eins og einni læknisskoðun.    Veit samt ekki hvort ég á að panta tíma hjá augnlækni eða heimilislækni.    Hvort ég á að fara að borða hollari mat, hreyfa mig meira og læra að spenna mig ekki svona mikið upp eða fara til geðlæknis.    Eða halda bara áfram eins og ekkert hafi í skorist........


gæðastund

Fyrramálinu fæ ég að eyða með barnabarninu mínu.  Það er víst síðasti skipulagði morguninn sem ég á, á þessari önn.

....ég ætlaði að vera búin að hitta pabba minn, tala í símann við mömmu mína og skrifa frænda mínum bréf. 
....ég ætlaði líka að vera búin að hengja upp jólastjörnurnar í stofugluggann, hengja upp gardínur fyrir svefnherbergisgluggann og tengja allar ljósakrónur sem voru rifnar niður fyrir málningarframkvæmdirnar miklu.

Mig langar í saumavél..


súkkulaði

Grunnskólaneminn saumar kjóla með aðstoð VæntanlegsTrúarbragðafræðings.....  Ég baka smákökur og hugsa um uppákomur fyrir Minn Vinnustað

Ég sat ásamt fleirum sjúkraliðum á Mínum Vinnustað fyrir á mynd og veitti viðtal um okkur og okkar starf á þessum stað.  Þetta viðtal kemur væntanlega í næsta eintaki af Sjúkraliðablaðinu.

Í gær mótmælti ég öllu.... 

Ég horfði á fullorðið fólk koma úldnu grænmeti, ávöxtum og eggjum fyrir á Austurvelli fyrir framan Alþingishúsið í þeim tilgangi einum að einhver (börn) sæu hjá sér þörf til að grýta þessu á Steinklumpinn.   Það hefði verið nær að fara fyrir utan heimili þeirra sem allt er um að kenna og ata þeirra hús út með einhverju úldnu....

Ég var alveg komin í fíling fyrir byltingu.  Sá mig fyrir mig leiðandi fólksskara um borgina þvera og endilanga til að brenna og brjóta niður eignir allra sem ég gæti talið að hefðu staðið fyrir því að ég þurfi að upplifa KREPPU....    bara svona til að undirstrika reiði mína.

Ég er samt eiginlega ekki búin að gera neitt nema gráta síðan ég stóð þessa samkomu.  Lögfræðineminn sem stóð í púlti og talaði, fékk mig til að átta mig á alvarleika málsins.  Þrjúhundraðþúsund einstaklingar að borga brúsann af brambolti 30 manna án þess að hafa tækifæri til að færa þessa 30 manns til saka um aldur og ævi.   Þrjúhundruðþúsund einstaklingar reyna að berja í borðið og segja hingað og ekki lengra en ráðamenn þjóðarinnar hrista það af sér, eins og venjulega,  því þetta er of spennadi verkefni til að láta það frá sér í hendur nýrrar ríkistjórnar.
Mest hötuðu menn þjóðarinnar grafa höfuðið í sandinn og bíða eftir að Íslendingar gleymi.  Og Íslendingar munu gleyma.  Íslenska þjóðin hefur alltaf verið dugleg við að gleyma,


fúl

Ef ég væri ávöxtur.....  

Þá væri ég sítróna á síðasta söludegi.


svo föl og fár

Ég var að fá kort frá Serbíu.......

Í kvöld fékk ég loksins skýringu á því hvers vegna ég hef ekki tíma til að framkvæma allt sem ég vil.   Það kom í ljós að í þessu lífi er bara mánudagur og svo er komin föstudagur.....  og eins og við vitum öll skilar tveggja daga vika engum afköstum.

Það mátti heyra saumnál detta í kennslustofunni í dag þegar ég fór að tala um kynlíf aldraða, stinningu, sáðlát og fullnægingu kvenna, allt í eina og sama fyrirlestrinum.  Sá og hinn sami fyrirlestur endaði í sögu sagðri á enskri tungu um ástarmál tveggja Alzheimersjúklinga í Suður-Afríku.

Á morgun ætla ég svo að gera heiðarlega tilraun til að komast í Sjúkraliðablaðið...


afturhvarf til lífsins

...ég fór á fætur í morgun staðráðin í því að núna væri komið nóg...

...yfir kaffibolla þar sem ég ráðgerði að mæta á samstarfsfund á Mínum Vinnustað hringdi Mímir símenntun og krafðist skila á veikindafríi sem ég hafði gefið mér í aumingjakastinu sem þjáð hefur mig undanfarið....

...núna langar mig til að vita hvað kom fram á þessum fundi, hvað var ákveðið og hverju verður breytt...

...ég verð að fá leyfi til að baka í vinnunni á Mínum Vinnustað á fimmtudagskvöldi þar sem ég á að baka 25 stykki smákökur fyrir Grunnskólanemann og 25 stykki muffins fyrir fjáröflun hennar í útskriftarferð í vor og ég er bara ekki nógu mikið heima fyrir klukkan 18:00 á föstudag til að ná að framkvæma þennan verknað heima hjá mér nema ég sleppi smá slatta af mínum dýrmæta svefntíma...

...og auðvitað tími ég því ekki..


rassgat í bala

Mig vantar sellerí til að setja út í súpuna mína....

Á morgun er það kennsla, ganga á fjallstind og læra eins og landafjandi.  En bara ef ég nenni.  Ef ég nenni fyrir eyrnaverkjum, hóstaköstum og verkjum í höfði. 

Ég er haldin einhverju syndrome sem lýsir sér í leiða, leti og lítilmennsku og ég lýsi hér sem annars staðar sem flensu með mörgum fögrum orðum sem eru undirstrikuð með hásu raddleysi mínu sem allir túlka sem sjúkdómsástandi fárveiks einstaklings.

Ég sef meira en tólf tíma í einu og þarf samt að leggja mig þess á milli.  Þegar ég opna augun á morgnana horfi ég sljóum augum út í tómið og hugsa um allt sem ég þyrfti að gera.  Það endar með sjálftakasti sem fær mig til að hjúfra mig betur undir sængina....  Þegar ég hef sannfært sjálfa mig að það sé komin tími til að skríða fram úr og haga sér eins og sannri konu sæmir, man ég aftur eftir öllu sem ég þyrfti að framkvæma og ég brest í grát yfir vanmætti mínum til að framkvæma eitt eða annað.  Auðvitað verður það til þess að ég skríð upp í rúm aftur og gleymi mér um stund.  Þegar ég svo að endingu held höfði nógu lengi til að koma mér á klósettið og svo fram í eldhús til að útbúa mér morgunmat sé ég að það er farið að skyggja aftur.  Við það verð ég náttúrulega svo reið sjálfri mér fyrir að hafa ekki framkvæmt neitt einn dag enn að ég skríð í vanmætti mínum aftur inn í rúm og treð höfðinu vel undir koddann.

Mig bráðvantar sellerí.....


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband