það er gott að elska en erfiðara að þrá...

....segir konan sem liggur alltaf í heita pottinum með mér á þriðjudögum eftir rölt um Elliðarárdalinn.

Síðan segir hún að ég eigi kannski bara að skoða Tónlistamanninn betur.  Með orð hennar að leiðarljósi mun ég setja upp sterku gleraugun næst þegar ég á hitting við þann gaur og virða hann vel og vandlega fyrir mér.  

Ekki það að ég hafi hugmynd um hvað hún ætlast til að ég sjái......

Létt Bylgjan hljómar hér inn og út allan daginn þar sem ég er að njóta jólatónlistarinnar út í ystu æsar.   Og þær birgðir af sælgæti og sætindum sem ég hamaðist við að hamstra að mér fyrir jólahátíðina minnka átakanlega hratt.  Á morgun kem ég til með að mæta á Minn Vinnustað og þar kem ég til með að vera fram á nýtt ár.   Á morgun eins og aðra daga þessa hátíðar kem ég ekki til með að nenna að hreyfa mig of mikið og því kem ég til með að hoppa upp í jeppann sem stendur hér í hlaðinu og keyra þá leið sem ég annars er vön að ganga.

Lengi lifi leti mín eða alveg fram á sunnudag því þá ætla ég að ganga á Vífilfellið.......


Ég óska ykkur....

.....gleðilegra daga.   Og þó sérstaklega kvöldsins í kvöld !!

jólin sjálf....

....eru runnin upp.  

Og í stað þess að vera á fullu að pressa föt, hafa áhyggjur af matseld, hreinum gólfum og að allt sé nú örugglega á sínum stað sit ég bara og prjóna.
Þegar líða fer að aðfangadagskvöldinu sjálfu mun ég klæða mig í betrifötin, rölta heim til vinkonu minnar og keyra þaðan sem leið liggur í Hafnarfjörð til að njóta kvöldsins í félagsskap smáverunnar í þessari fjölskyldu.
Á morgun á ég svo von á að megnið af mínum börnum heiðri mig með nærveru sinni yfir hangikjötsdisk og emmesís.   En eftir það tekur við vinna fram á næsta ár......

Fyrir þessi jól gerði ég ekkert frekar en önnur jól í lífi mínu en þegar komið er að jólahaldinu sjálfu á ég mér alltaf stórar fyrirætlanir um hvernig aðförum að næstu jólum skal háttað.     Á næstu jólum skal sko það vera gert sem mig langar alltaf svo mikið til að hafa framkvæmt en kem aldrei í verk vegna anna, eða þannig......

Ár eftir ár þvælast þungar hugsanir fyrir mér á Þorláksmessudag.   Svo þungar hugsanir að ég framkvæmi yfirleitt lítið annað en að vatnamúsum fram eftir degi.   Þetta árið hugsaði ég mikið um hvað ég þekki börnin mín lítið í raun.   Ég veit  ekkert hvað þau eiga í eldhússkápunum sínum, hvað þeim vantar eða hvað þeim langar í.  Ég veit ekki hvað þeim finnst skemmtilegt að hlusta á, horfa á eða að framkvæma.  Ég veit bara ekkert um hvað þeim vanhagar um eða hvað þau þrá að fá.   Kannski er það eðlileg framvinda lífsins en þetta er alveg himinn og haf frá því sem var þegar þau voru yngri....

Draumar mínir snúast um betri framkvæmd fyrir næstu jól, stífar æfingar fyrir væntanleg afrek komandi sumars og Toppmanninn en hann þvælist reyndar bara fyrir í martröðum svefns og vöku....


vegna anna...

....hef ég bara ekki haft neitt að segja.

Ég er búin að vinna og vinna meira.   Hitta fólk og upplifa hluti.  Og gera allt það sem ég hef getað gert á heimilinu þess á milli.....

hreyfing:    klifur upp í risa, risastóra jeppa mannsins sem heldur því fram að rassinn á mér taki of mikið pláss af sjóndeildarhring hans....
næring:    heimalagað konfekt, lakkrís konfekt og malt&appelsín.....

Í dag elska ég Ljósmyndarann á Mínum Vinnustað heitast af öllum.  Í dag eyddi ég nefnilega vinnutímanum í það að elda hafragraut, sita yfir Kópavogsbúanum, fylgja einum í klippingu, taka til á líninu og baka smákökur á meðan ég hlustaði á fiðluspil og þegar Ljósmyndarinn mætti og gæddi sér á einni smákökunni sagði hann:  þetta er rosalega góðar smákökur hjá þér. Þær eru sko betri en hjá mömmu !!   Ég hef bara ekki fengið svona gullhamra lengi, lengi.

En í gær elskaði ég Ísland heitast af öllu.  Ég var nefnilega að þvælast um á milli fjalls og fjöru, frá sólarupprás til sólarlags og það á launum frá ríkinu.

Og í fyrradag elskaði ég alla þessa stráka sem ég þekki ekki neitt en veit að eru einhleypir og hafa gaman af samveru.   Þessir strákar eru bara alveg ótrúlega skarpir. 
Einn þeirra talaði um dagsgöngu um Laugaveg sem ætti að enda með því að við myndum hringa upp Fimmvörðuhálsinum og ég er bara alveg að falla fyrir þessari hugmynd.
Annar bennti mér á kosti þess að baka bara aldrei síðustu plötuna af smákökunum þar sem ég hef alltaf haft einstakt lag á að brenna hana.  
Meðal þeirra var líka talað um gildi þess að skrifa lista.  Langan lista listans vegna.   Og um samsæri gegn Íslandi, matarboð á Gamlaárskvöld, Básaferð og Bláar myndir í þrívídd........

Á morgun kem ég til með að vera með hugann bundin við Manninn sem semur tónlist, spilar á hljómborð, lyktar vel og hefur vit á að bjóða mér með sér á blústónleika víðsvegar um borgina og það blússins vegna.


ég et bara og ligg í leti...

..og það er skelfilegt þar sem ég vil komast í ofurform STRAX.

hreyfing:    regnganga í 17 metrum á sekúndu 5,5 kílómetra...
næring:    piparkökudropar...

Ég er stefna á eitthvað stórt !!


markmið mín

hreyfing:    ganga með ókunnuga fólkinu...
næring:    snikkers og pepsíMax í boði bílsins...

Í augnablikinu á ég mér tvö markmið:    að verða betri og að verða ennþá betri.   Það er að segja að ganga á Hvannadalshnjúk og fara Glerárdalshringinn á 28 tímum....

Þykist öðrum mönnum meiri
þenur brjóst og sperrir stél.
Vill að allur heimur heyri
hvað hann gerir listavel.

Á plani er auk þess:
að hætta að éta sændindi og óhollustu  út í eitt..
að fara í skíðaferð til Ísafjarðar..
að halda ættarmót..
að fara á Humarhátíð..
að fara á Þjóðhátíð eyjanna..
að gera meira..
að fara oftar til Akureyrar..
að sofa meira..
og
að eyða minni tíma í tölvu..


félagsheimili ellu...

...er fullt eins og venjulega.   Unga stúlkan á heimilinu hefur alltaf haft einstakt lag á því að fylla heimilið af vinkonum allt frá því að hún náði þriggja ára aldri og það er ekkert lát á því enn....

Ég sé það ekki alveg fyrir mér hvernig þær komast fyrir til að sofa......


langur vinnudagur...

....fyrir konu sem nennir varla að vinna nokkurn skapaðan hlut.

Á leið minni heim í kvöld heillaði ég KONU upp úr skónum.  Þessi tiltekna kona settist hjá mér þar sem ég sat og prjónaði á hlemmi.  En ástæða þess að ég var stödd á hlemmi einmitt í kvöld var vegna þess að ég nennti ekki fyrir mitt litla líf að labba heim eftir sextántíma vakt.   Nema hvað.... þessi kona sest hjá mér og segir:  ..svakalega ertu dugleg..  og auðvitað þurfti ég að ræða við hana um þessa yfirlýsingu hennar.
Þar sem ég sat og skiptist á skoðunum við þessa alveg bláókunnugu konu hafði ég haft augun á ungri stúlku sem sat á öðrum bekk að tala í síma og var greinilega að reyna að fá viðmælanda sinn til að kaupa tölvu sem hún sat með fyrir framan sig og reyndi að lesa af einhverjar upplýsingar sem þessi viðmælandi vildi greinilega fá.
Í miðjum samræðum mínum um dugnað minn tók ég eftir því að unga stúlkan var hætt að tala í símann sinn svo ég lagði frá mér prjónadótið, stóð upp og sagði hátt og skýrt ..komdu hingað stúlka og faðmaðu frænku þína aðeins..   Þessi elska kom auðvitað strax en sagði þar sem hún stóð fyrir framan mig  ..ertu viss um að þú viljir það?..  Eftir knús og tárvota kossa út og suður og yfirlýsingar um að frænkur séu alltaf frænkur og að allir verði að ná sínum botni og eitthvað þannig, yfirgaf ég litlu frænkuna mína og fór upp í strætó.   Í strætó sat ég og hugsaði um orð heilluðu konunar sem ómuðu í höfði mínu:  ..vá, en fallegt..
Ég verð bara að segja eins og er...  mér fannst þetta bara ekkert fallegt...  mér fannst þetta alveg frábært.  Frábært að hafa hitt á litlu frænkuna mína og haft tækifæri til kyssa hana og  knúsa og segja henni að þrátt  fyrir allt og allt sé hún æðisleg og að mér þyki alltaf jafn vænt um hana.

Ég viðurkenni það samt fúslega að tár láku niður kinnar mínar í stríðum straumum í strætó þegar ég hugsði:  .. hvað ef..


það eru vsk-skil á mánudag....

stærra barnabarna afmæli á sunnudag og það stendur til konfektgerð á föstudag....

hreyfing:    engin
næring:    súkkulaðibitasmákökurellu.... og það tíu stykki...

Ég veltist um í kvöld og vissi ekki hvað ég átti að gera svo að ég raðaði prjónadótinu upp, bókunum sem ég er að lesa og smá af teiknidóti líka.  Fór svo fram í eldhús og byrjaði að baka smákökur.   

Núna er ég södd og sæl, búin að prjóna þrjár umferðir, lesa tvær línur og á eina litla mynd sem ekkert er varið í.

Og svo er ég altaf að halda því fram að ég geri ekkert.......


kertalogi...

....vísar mér veginn núna.   Þar af leiðandi flökta ég eins og reikull róni.

Einn vinur minn sagði einu sinni: ,,þetta er allt í hausnum á þér"  og ég er sannfærð um að hann hefur rétt fyrir sér.   Það gerir þetta samt ekkert auðveldara.

Mig langar... og ég vil... og ég hef engan tíma til að bíða eftir að fá... þar af leiðandi eyðilegg ég þá möguleika mína sem ég hugsanlega kannski átti.

Ég veit ekki hvort ég á að spýta í lófann og halda áfram eða setjast niður með hendur undir kinn og væla.

En það kemur í ljós......

Auðvitað hef ég komist með nefið í blað sem segir frá  hinni 90 ára gömlu Reginu Brett frá Ohio sem skifaði niður 45 atriði sem lífið hefur kennt henni.   Nokkur af þessum atriðum komu við kaunin á mér....

-Vinnan þín mun ekki sjá um þig þegar þú verður veik.  Vinir þínir og fjölskylda munu gera það.  Vertu því í sambandi við þau..

Svo ég er búin að hringja í öll börnin mín og stefni á samræður við aðra ættingja mína eins og efni standa til.   Ættarmótsplan er komið upp á borðið og ég er farin að strjúka heimilisfangabókinni minni.  Eins gott að ég komi mér í mjúkin hjá þessu liði svo að það hugsi almennilega um mig þegar þar að kemur.

-Ef samband þarf að vera leynilegt, þá áttu ekki að vera í því.

Strákar látið mig í friði framvegis nema þið séuð tilbúnir til að taka á því.. því ég mun öskra út í tómið allar staðreyndir um það sem á milli okkar fer.

-Mest áríðandi kynfærið er heilinn.

Ég er enn að reyna að átta mig á því hvað þetta þýðir en ég efast ekki um að þetta er mjög mikilvægt fyrir mig að skilja og læra.  

Á meðan ég bíð eftir hugljómun sem fleytir mér áfram til fullnægjandi lífs, prjóna ég vettlinga, grifflur og sokka og les bók paulo coelho ,,Nornin í Portabello".  Ég er líka með hugann flöktandi í átt til jólaljósa, smákakna og jólagjafa.  Í tölvunni ómar rödd Ragnheiðar Gröndal um ást, trú og líf, uppvaskið bíður mín og ég er á leið í bað......

-Allt sem skiptir máli í lokin er að þú hafir elskað-


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband